Hoppa yfir valmynd
15. mars 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Rúmar 70 milljónir veittar félagasamtökum á sviði heilbrigðismála

Frá veitingu styrkja til félagasamtaka á sviði heilbrigðisþjónustu - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 72,6 milljónum króna í styrki til 29 félagasamtaka sem starfa á sviði heilbrigðismála. Auglýst var eftir styrkumsóknum í október sl. og bárust 44 umsóknir. Ráðherra hitti fulltrúa félagasamtakanna í gær við formlega afhendingu styrkjanna.

Ráðherra og fulltrúi félags CP á Íslandi við afhendingu styrkjannaStyrkir sem þessir eru veittir árlega af safnliðum fjárlaga og fer um úthlutunina samkvæmt reglum heilbrigðisráðherra þar um.  Veittir eru styrkir til verkefna sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum, stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Ekki eru veittir styrkir til verkefna sem hljóta styrki á fjárlögum, falla undir sjóði ráðuneytisins eða er sinnt á grundvelli samninga við ráðuneytið.

Við afhendingu styrkjanna ræddi Svandís um hve mikilvæg störf félagasamtaka sem þessara væru fyrir samfélagið og hve rík ástæða væri til þess að styðja við starfsemi þeirra, líkt og styrkir af þessu tagi gerðu mögulegt: „Við eigum að muna eftir þessu á hverjum degi og hafa hugfast að öll sú vinna sem fram fer innan vébanda þessara félaga er ekki sjálfsögð og hana ber að meta að verðleikum.“

Fjárhæðir styrkja að þessu sinni nema á bilinu 300.000 – 6.500.000 kr. Hæstu styrkina að þessu sinni; 6,5 milljónir króna, hlutu Rauði krossinn í Reykjavík, Gigtarfélag Íslands og Hjartaheill, landsamtök hjartasjúklinga.

Meðfylgjandi er listi yfir félögin sem hlutu styrk að þessu sinni, fjárhæðir styrkjanna og til hvaða verkefna þeir eru ætlaðir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum