Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Sveitarstjórnarkosningar 2018

Kosning utan kjörfundar erlendis vegna sveitarstjórnarkosninga  26. maí 2018 er hafin.

Kjörstaðir eru allar sendiskrifstofur Íslands (nema Fastanefnd hjá NATO í Brussel), aðalræðisskrifstofur í New York, Winnipeg, Þórshöfn og Nuuk ásamt skrifstofum 215 kjörræðismanna víða um heim.

Sendiskrifstofur Íslands erlendis eru að jafnaði opnar kjósendum á venjulegum opnunartíma og í einstökum tilvikum utan hans. Nánari upplýsingar um opnunartíma er að finna á vef viðkomandi sendiráðs. Kjósendur skulu hafa samband við kjörræðismenn og bóka tíma eftir samkomulagi til að kjósa. Staðsetningar sendiskrifstofa og ræðismanna eru á vef ráðuneytisins.

 Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 26. maí 2018, og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 5. maí 2018.
Einnig eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið upp nýtt umsóknarferli varðandi skráningu námsmanna á Norðurlöndunum á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar. Breytingarnar felast í því að umræddir námsmenn þurfa nú að tilkynna það rafrænt til Þjóðskrár Íslands að þeir séu námsmenn til þess að vera teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. 

Tilkynninguna skal senda rafrænt á eyðublaði K-101 sem er að finna á vef Þjóðskrár Íslands. Tilskilið er að framvísa staðfestingu á námsvist. Gert er ráð fyrir því að makar og skyldulið námsmanna tilkynni sig á sama hátt með tilvísun í viðkomandi námsmann. Senda þarf inn nýja tilkynningu fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Kjósendur erlendis bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæðum sínum til skila á Íslandi. Atkvæði þarf að berast til sýslumanns eða kjörstjórnar í  sveitarfélagi kjósanda

Eftir að kjósandi hefur greitt atkvæði hjá kjörstjóra er atkvæðið sett í kjörseðilsumslag og það límt aftur. Kjörseðilsumslagið og útfyllt fylgibréf er því næst sett í sendiumslag ætlað viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn (á skrifstofu hlutaðeigandi sveitarfélags) og lokað fyrir. Á bakhlið þess eru upplýsingar um kjósanda sem hann verður að fylla út svo atkvæðið rati á réttan stað. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili á Íslandi sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja þetta umslag ofan í annað og merkja það viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn. Hægt er að senda utankjörfundaratkvæði með pósti eða koma því á einhvern annan hátt í hendur hlutaðeigandi kjörstjórnar.

Staðsetningar sýslumanna
Uppfletting í kjörskrá (er nær dregur kosningum)

Á vefnum kosning.is er birt upplýsingaefni bæði á íslensku og ensku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum