Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2018 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Þolmörk ferðamennsku – ráðherra leggur fram skýrslu á Alþingi

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um þolmörk ferðamennsku.

Ferðaþjónusta hefur á fáum árum orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum á Íslandi. Stóraukinni ferðamennsku hafa fylgt ýmis þekkt umhverfisleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif, bæði jákvæð og neikvæð. Í skýrslunni er sett fram heildstæð úttekt á niðurstöðum rannsókna á sviði þolmarka ferða­mennsku á Íslandi. Lögð er fram tillaga um mótun verkferils sem getur gert stjórnun áfangastaða skilvirkari og þannig stuðlað að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu hér á landi.

Þær þolmarkarannsóknir sem hafa verið framkvæmdar sýna að staða mála er mjög mismunandi eftir stöðum og landshlutum. Þolmörkum af ýmsu tagi hefur til dæmis nú þegar verið náð á ákveðnum stöðum fyrir töluverðu síðan, einkum á Suðurlandi þar sem álagið vegna fjölda ferðamanna er mest.

Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða á undanförnum árum til bættrar dreifingar ferðamanna yfir árið og um landið. Fjölmörg verkefni og áætlanir eru enn fremur í smíðum sem miða að bættri stýringu og skipulagi m.t.t. ferðamennsku. Skýrslan sýnir að nota má hugtakið þolmörk til að byggja undir markvissa ákvarðanatöku um skipulag og stýringu á áfangastöðum ferðamanna, með því að móta verkferil byggðan á vísindalegum grunni þolmarkarannsókna.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála: „Ég er sannfærð um að þolmarkaskýrslan á eftir að nýtast okkur vel í því að móta ferðaþjónustu á Íslandi til framtíðar. Það eru allir sammála um að það þurfi að koma upp öflugra skipulagi við stjórnun áfangastaða hér á landi og að gæta þurfi betur að jafnvæginu milli verndunar og nýtingar.“

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 13 Verndun jarðarinnar
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira