Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslenskir háskólanemar vinna mikið og eru ánægðir með gæði kennslunnar

Íslenskir háskólanemar eru ánægðir með gæði kennslu, skipulag náms og námsaðstöðu en þeir vinna mikið í samanburði við aðra háskólanemendur samkvæmt nýrri samevrópskri könnun.

EUROSTUDENT er samanburðarkönnun á högum um 320.000 háskólanema í 28 löndum á evrópska háskólasvæðinu (e. European Higher Education Area, EHEA). Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í könnuninni og mögulegt er að nálgast upplýsingar um hagi, efnahag, hindranir, aðgengi og fjölskylduaðstæður íslenskra háskólanema og bera þær saman við upplýsingar um nemendur annars staðar í Evrópu.

Könnunin náði til háskólanema í grunn- og meistaranámi við alla háskóla á Íslandi og er byggð á ítarlegum svörum tæplega 2.000 þátttakenda. Íslenski hluti könnunarinnar var unnin af mennta- og menningarmálaráðuneyti í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), Rannsóknamiðstöð Íslands og Háskóla Íslands. Maskína annaðist framkvæmd verkefnisins hér á landi.

Meðal upplýsinga sem fram koma í rannsókninni eru:

  • Meðalaldur íslenskra háskólanema er hærri (29,7 ára) en nemenda á Norðurlöndum (27,8 ára) og í hinum EUROSTUDENT löndunum (25 ára) og ekkert annað þátttökuland er með jafn hátt hlutfall nemenda yfir þrítugu. Þriðjungur svarenda á Íslandi átti eitt barn eða fleiri, sem er hæsta hlutfall meðal þáttökulandanna og 41,2% af yngstu börnum háskólanema á Íslandi eru undir 3ja ára aldri.
  • Meirihluti háskólanema í íslensku könnuninni segist vera ánægður með skipulag og stundatöflu námsins (66%), námsaðstöðu (67%) og gæði kennslunnar (71%) og er það mun meiri ánægja en hjá nemendum í EUROSTUDENT löndunum. Íslenskir háskólanemar eru sérstaklega ánægðir með nemendagarða, bæði hvað varðar staðsetningu og aðbúnað.
  • Konur eru mikill meirihluti háskólanema á Íslandi. Nær 63% þátttakenda á Íslandi voru konur og rúmlega 37% karlar, en hlutfall kvenna sem tóku þátt í EUROSTUDENT könnuninni var 56%.
  • Háskólanemar á Íslandi gera frekar hlé á námi milli framhaldsskóla og háskóla (27%) en nemendur í samanburðarlöndum (14%) og hafa 88% þeirra öðlast starfsreynslu við upphaf háskólagöngu samanborið við 53% í EUROSTUDENT löndum. Þeir eru einnig gjarnari á að gera hlé á háskólanáminu sjálfu, einkum vegna fjölskylduaðstæðna (43%), fjárhagslegra örðugleika (33%) og atvinnu (28%).
  • Hlutfall nemenda á Íslandi sem skilgreina sig með með fötlun, hömlun eða langvarandi heilsufarsvandamál (39% svarenda) er með því mesta sem gerist í EUROSTUDENT löndunum (meðaltal 18%) og mun hærra en á hinum Norðurlöndunum (25%). Konur glíma aðallega við andleg veikindi en karlar við sértæka námsörðugleika. Athygli vekur að 15% íslenskra svarenda glíma við andleg veikindi en meðaltalið er 4% í EUROSTUDENT löndunum; þá segjast 18% íslenskra svarenda vera með sértæka námsörðugleika en meðaltal EUROSTUDENT landanna er 3%. Einungis 26% þeirra sem skilgreindu sig með fötlun, hömlun eða langvarandi heilsubrest töldu hana hafa mikil áhrif á námið.
  • Háskólanemar á Íslandi vinna mikið og telja fjárhagsstöðu sína erfiða. Þeir verja samkvæmt könnuninni meira en 50 stundum á viku í launaða vinnu og nám, meira en í nokkru öðru landi. Mestu munar þar um sjálfstætt nám utan stundatöflu, en nemar á Íslandi verja miklum tíma í sjálfstætt nám, þótt skipulagt nám sé engu minna hér en annars staðar. Háskólanemar á Íslandi vildu þó geta varið enn meiri tíma í námið en þeir gera nú. Þótt ráðstöfunartekjur íslenskra háskólanema séu yfir meðaltali EUROSTUDENT landanna er húsnæðiskostnaður hár og tveir af hverjum þremur sem reiða sig á námslán hafa áhyggjur af fjárhag sínum.

  • Það vekur einnig athygli hve mikil áhrif menntun foreldra hefur á fjárhagslega og félagslega stöðu háskólanema jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum er EUROSTUDENT VI könnunin náði til. Þannig hefja nemendur sem eiga háskólamenntaða foreldra nám fyrr en þeir sem eiga foreldra sem aldrei hafa hlotið háskólagráðu og er sá munur áberandi meðal háskólanema á Íslandi, þar sem meðalaldur háskólanema með háskólamenntaða foreldra er 26,8 ár en þeirra sem eiga foreldra án háskólaprófs 32,9 ár. Sambærilegar tölur fyrir EUROSTUDENT könnunina í heild eru 24,2 ár og 25,9 ár. Nemendur sem eiga háskólamenntaða foreldra eru mun líklegri til að stefna á framhaldsnám erlendis en þeir sem ekki eiga háskólagengna foreldra. Þá eru íslenskir nemendur áhugasamari um framhaldsnám erlendis en flestir nemar í Evrópu, en Ísland skipar annað sæti á lista yfir lönd hvar nemendur stefna á slíkt nám.

Allar niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast í gagnagrunni hennar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum