Söfnin eru fjársjóðir – úthlutanir úr safnasjóði 2018
Fulltrúar þeirra safna sem hlutu fimm hæstu verkefnastyrkina að þessu sinni kynntu verkefni sín í úthlutunarboði safnaráðs sem fram fór í kjölfar vorfundar listasafna í Listasafni Íslands sl. mánudag. Þeir voru:
• Byggðasafnið í Görðum - ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum, fasi 2
• Byggðasafn Vestfjarða - Ég var aldrei barn, annar hluti
• Borgarsögusafn Reykjavíkur - Safngestir sem vísindafólk á sjóminjasafni
• Gerðarsafn - Listasafn Kópavogs - GERÐUR | Grunnsýning á verkum Gerðar Helgadóttur
• Náttúrufræðistofa Kópavogs - Margmiðlunarvæðing grunnsýningar
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra var viðstödd viðburðinn og hélt þar ávarp: „Söfnin í landinu eru okkar fjársjóðir. Þangað sækjum við fróðleik og innblástur og þau tengja okkur við tímann og söguna. Þetta er í sautjánda sinn sem úthlutað er úr safnasjóði. Sú vinna sem þar að baki býr – bæði af hálfu safnanna, safnaráðs og þeirra sem fara yfir umsóknirnar hverju sinni – hlýtur jafnan litla athygli. Svo hér er vert að þakka þeim sem komið hafa að þessari faglegu vinnu gegnum árin og óska jafnframt öllum styrkþegum sjóðsins til hamingju. Gleðilegt safnasumar.“
Sjá nánar um úthlutanir safnasjóðs 2018.