Hoppa yfir valmynd
2. maí 2018 Matvælaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um tollasamning og mótvægisaðgerðir stjórnvalda

Með vísan til umræðu í fjölmiðlum um mótvægisaðgerðir vegna tollasamnings Íslands við Evrópusambandið vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.

Í apríl 2016 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að kanna áhrif tollasamnings við ESB, þar sem lagt var mat á hvernig einstaka búgreinar gætu tekist á við afleiðingar samningsins. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands og búgreinafélögum, Samtökum iðnaðarins, utanríkisráðuneytinu auk fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Starfshópurinn skilaði skýrslu tveimur mánuðum síðar þar sem að komu fram tillögur í átta liðum. Tvær tillagnanna eru þegar komnar til framkvæmda, tvær aðrar eru langt komnar en um fjórar tillagnanna hefur ekki verið tekin ákvörðun.

 

Þær tillögur sem eru þegar komnar til framkvæmda:

 1. Að tollkvótum verði úthlutað oftar á árinu, allt að fjórum sinnum í stað einu sinni, til þess að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað.

  Staða: Þegar komið til framkvæmdar að auglýsa ESB tollkvóta tvisvar á ári.

 2. Að heimilað verði að nýta fjármuni til úreldingar sem ætlaðir eru til fjárfestingar hjá svínabændum.

  Staða: Samkvæmt reglugerð nr. 1180/2017 um almennan stuðning við landbúnað er heimilt að ráðstafa í úreldingabætur, allt að 40% árlegs framlags til fjárfestingastyrkja í svínarækt samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.

   

  Að auki var rætt um það á vettvangi starfshópsins að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skyldi eiga frumkvæði að því að koma á samtali milli Bændasamtaka Íslands, Mjólkursamsölunnar og Samtaka iðnaðarins um að finna leiðir til að jafna hráefniskostnað (undanrennu- og mjólkurduft, o.fl.) í samkeppnisiðnaði, s.s. vegna framleiðslu á súkkulaði og ís.

  Staða: Rétt er að benda á að komið hefur verið til móts við samtök iðnaðarins um verðlagningu á undanrennu- og mjólkurdufti frá 1. júlí 2016 sbr. ákvörðun verðlagsnefndar búvara þegar verð á þessum vörum var lækkað um 20%.

  Þær tillögur sem eru langt komnar:

 3. Að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

  Staða: Stefnt að þessu við innleiðingu á nýjum samningi við EBS sem tók gildi 1. maí 2018, unnið er að því að koma þessu til framkvæmda.

 4. Stjórnvöld leiti allra leiða til að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings, m.t.t. gæðakrafna, einkum og sér í lagi að því er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða.

  Staða: Reglugerð nr. 33/2017 hefur þegar verið sett um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað fyrir nýtt, kælt og fryst kjöt af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum. Þá var settur starfshópur um miðlun upplýsinga um lyfjanotkun við framleiðslu afurða úr dýraríkinu, starfshópurinn skilaði ekki niðurstöðum og var slitið. Hinn 21. febrúar 2018 skrifaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf til heilbrigðisráðherra um nauðsyn þess að Ísland setji sér stefnu um sýklalyfjaónæmi. Þá er nefndarvinna í gangi varðandi fjölónæmisbekteríur og einnig er verið að koma á alþjóðlegusamstarfi um sama efni.

   

  Þær tillögur sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um:

 5. Að skorti á tilteknum skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem skortur er á.
 6. Stjórnvöld skipi starfshóp sem verði falin greining á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart mögulegum breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Sérstöku fjármagni verði veitt í slíka greiningarvinnu.
 7. Að leitað verði leiða til að andvirði tekna af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt verði ráðstafað til fjárfestinga og stuðnings við svína- og alifuglabændur til að uppfylla kröfur vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða.
 8. Að stofnaður verði nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun fyrir svína- og alifuglabændur með lægri vaxtakjör en á öðrum lánum sem þessar greinar hefðu aðgang að til að mæta nýjum aðbúnaðarreglugerðum.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum