Hoppa yfir valmynd
7. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar tekin til starfa

Anna Lilja Gunnarsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Ásmundur Einar Daðason á skrifstofu Sigríðar við opnun ráðuneytisstofnunarinnar í dag - myndVelferðarráðuneytið

Ný ráðuneytisstofnun; Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF), tók formlega til starfa í dag. Stofnunin mun í byrjun sinna stjórnsýsluverkefnum og eftirliti á sviði félagsþjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélaga, opinberra stofnana eða á grundvelli samninga, auk afmarkaðs eftirlits á sviði barnaverndar.

Undir félagsþjónustu sveitarfélaga heyrir meðal annars ýmis þjónusta sem snýr að börnum, fjölskyldum, fötluðu fólki, öldruðum og innflytjendum. Á sviði barnaverndar mun eftirlit stofnunarinnar einskorðast við meðferðarheimili barna sem til þessa hefur heyrt undir skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu. Hvort önnur eftirlits- og stjórnsýsluverkefni á sviði barnaverndar verða færð til stofnunarinnar ræðst af endurskoðun barnaverndarlaga sem stendur fyrir dyrum.

Ákvörðun um að setja á fót sérstaka gæða- og eftirlitsstofnun um þessi verkefni byggist á tillögum nefndar sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði árið 2014. Markmiðið er að styrkja undirstöður heildstæðrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga og skilja með skýrum hætti á milli stjórnsýslu- og eftirlitshlutans annars vegar og veitingu þjónustunnar hins vegar, líkt og gert er á sviði heilbrigðisþjónustu þar sem Embætti landlæknis annast eftirlit og tiltekin stjórnsýsluverkefni.

Gæða- og eftirlitsstofnunin er grundvölluð á 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 sem kveður á um heimild til að setja á fót ráðuneytisstofnun sem telst hluti af ráðuneyti en er rekin sem sérstök starfseining.

Stjórnandi nýju stofnunarinnar, skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra, er Sigríður Jónsdóttir sem undanfarin ár hefur starfað sem sérfræðingur í velferðarráðuneytinu og hefur áratuga langa reynslu af verkefnum sem heyra undir starfssvið stofnunarinnar. Fjórir starfsmenn sem áður störfuðu á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu hafa tekið til starfa hjá ráðuneytisstofnuninni, þau Guðrún Björk Reykdal, Halldór Gunnarsson, Rósa Guðrún Bergþórsdóttir og Salóme Anna Þórisdóttir. Á næstunni bætast við tveir starfsmenn til viðbótar og stendur ráðningaferli yfir.

Sigríður Jónsdóttir sagði við formlega opnun stofnunarinnar í Skógarhlíð 6 í dag að hún muni leggja mikið upp úr samstarfi við sveitarfélög, hagsmunaaðila og stofnanir sem varða verkefni stofnunarinnar og þar skipti máli að byggja á trausti og gagnkvæmum skilningi: „Markmiðið er að bæta stjórnsýslu og efla eftirlit með mikilvægri þjónustu til að tryggja öryggi og gæði hennar í þágu notendanna.“

Ásmundur Einar Daðason segir mikilvægt að þessi stofnun sé orðin að veruleika: „Þetta var löngu tímabært og er í samræmi við það sem nágrannaþjóðir okkar hafa gert í sama tilgangi, þ.e. að efla eftirlit með viðkvæmri þjónustu, skilja á milli veitenda þjónustunnar og eftirlitsaðilans og síðast en ekki síst að stórefla vinnu við gerð gæðaviðmiða og kröfulýsinga.“

Helstu verkefni Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar eru:

  • Þróun útgáfu og gæðaviðmiða, kröfulýsinga og árangursmælikvarða.
  • Réttindagæsla fatlaðs fólks.
  • Endurgreiðslur til annarra stjórnvalda á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarlaga.
  • Upplýsingaöflun og greining gagna.
  • Að taka á móti tilkynningum eða ábendingum um misbresti í þjónustu eða stjórnsýslu þjónustuveitenda.
  • Úttektir og eftirlit.
  • Eftirfylgd.

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks sem starfa um allt land heyra  undir stofnunina. Undir hana heyrir einnig sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr nauðung í þjónustu við fólk og nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar gagnvart fötluðu fólki en réttindagæslumennirnir, undanþágunefndin og sérfræðiteymið starfa á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum