Hoppa yfir valmynd
8. maí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um að beita efnahagslegum hvötum í lýðheilsuskyni

Embætti landlæknis - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í dag tillögur Embættis landlæknis um að breyta álögum á tiltekin matvæli til bæta neysluvenjur landsmanna. Tillögurnar eru í samræmi við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um aðgerðir til að efla lýðheilsu og draga úr heilsufarslegum ójöfnuði.

Svandís segir mikilvægt að stjórnvöld fjalli um tillögur Embættis landlæknis, enda sé það lagt til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að kostir þess að beita efnahagslegum hvötum til að efla lýðheilsu verði skoðaðir.

Í minnisblaði embættisins til heilbrigðisráðherra þessa efnis er áhersla lögð á að lýðheilsusjónarmið verði höfð til hliðsjónar við beitingu efnahagslegra hvata þannig að þeir virki sem forvarnaraðgerð og verði til þess að bæta heilsu landsmanna. Bent er á að sykurneysla sé mjög mikil hér á landi, hún sé yfir ráðlagðri hámarksneyslu meðal ungs fólks og barna og í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar sé neysla á sykruðum gosdrykkjum og sykurríkum vörum mest hér á landi. Þessar neysluvenjur auki líkur á offitu og tannskemmdum og geti aukið líkur á sykursýki af tegund tvö.

Embætti landlæknis segir að vísindalegur grundvöllur þess að beita vel skipulagðri skattlagningu á matvæli ásamt fleiri aðgerðum til að bæta neysluvenjur sé að styrkjast og sé hvað sterkastur þegar mat er lagt á heilsufarslegan ávinning af skattlagningu sykraðra drykkja.

Eftirfarandi eru tilögur Embættis landlæknis sem heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag:

  • Stjórnvöld hækki álögur á gosdrykki þannig að þeir séu skattlagðir í samræmi við almenna skattheimtu í landinu, þ.e. beri 24% virðisaukaskatt í stað 11%. Einnig að lögð séu vörugjöld á gosdrykki þannig að hækkunin á þeim nemi í heildina a.m.k. 20% sem er þá í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ráðleggur aðildarríkjum.
  • Fjármunir sem koma inn séu nýttir til að lækka álögur á grænmeti og ávexti. Eyrnamerkja ætti hluta af álögunum fyrir starf á sviði heilsueflingar eins og gert er með gjöld á tóbak og áfengi. Þannig geta stjórnvöld skapað aðstæður sem hvetja til heilbrigðari lifnaðarhátta og aukið jöfnuð til heilsu. Þetta er einnig í samræmi við ráðleggingar WHO.
  • Samhliða slíkri skattlagningu er mikilvægt að upplýsa almenning um heilsufarslegan ávinning af minni sykurneyslu. Einnig er mikilvægt að fylgjast með og meta hvaða áhrif skattlagningin hefur á neysluvenjur.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum