Hoppa yfir valmynd
11. maí 2018 Félagsmálaráðuneytið

Erna Kristín Blöndal annast verkefnisstjórn í málefnum barna

Erna Kristín Blöndal verkefnastjóri - mynd

Markviss vinna að endurskoðun félagslega kerfisins eins og það snýr að börnum og fjölskyldum þeirra er hafin, líkt og boðað var á fjölsóttri ráðstefnu velferðarráðuneytisins um snemmtæka íhlutun í málefnum barna í liðinni viku. Velferðarráðuneytið hefur samið við Ernu Kristínu Blöndal um að leiða vinnuna sem framundan er og lýtur m.a. að því að endurskoða barnaverndarlögin, innleiða í auknum mæli snemmtæka íhlutun og styrkja réttindi barna almennt.

Á ráðstefnunni var formlega sett af stað vinna sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að efla og bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Mörg brýn verkefni bíða úrlausnar sem krefjast víðtæks samráðs vegna þeirra áherslubreytinga sem unnið verður að. Áhersla verður lögð á að vinnan fari fram í góðri samvinnu við ráðherra heilbrigðismála og menntamála og sveitarfélögin sem veita umfangsmikla félagsþjónustu, sinna verkefnum á sviði barnaverndar, annast þjónustu við fatlað fólk og reka grunnskólana. „Við viljum brjóta múra og byggja brýr til að bæta þjónustu við börn og tryggja að þau sem þurfa á liðsinni að halda fái það eins fljótt og nokkur kostur er, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.“

Erna Kristín hefur áður starfað sem lögfræðingur og verkefnastjóri hjá innanríkisráðuneyti, nú dómsmálaráðuneyti. Hún var sérfræðingur þverpólitískrar þingmannanefndar um útlendingamál sem samdi það frumvarp sem varð að núgildandi lögum um útlendinga nr. 80/2016. Síðastliðin tvö ár hefur Erna verð framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga sem hefur meðal annars lagt áherslu á rannsóknir sem lúta að réttindum  barna. Samhliða hefur hún sinnt doktorsnámi í lögfræði á sviði mannréttinda, auk þess að sitja í stjórn UNICEF á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira