Hoppa yfir valmynd
17. maí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Fundur heilbrigðisráðherra og fulltrúa samráðsvettvangs geðúrræða

Skógarhlíð 6 - myndLjósmynd: Ríkiseignir

Samráðsvettvangur geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu átti fund með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á þriðjudag.  Á fundinum kynnti hópurinn hugmyndir sínar um samstarf í þágu einstaklingsbundinnar, þverfaglegrar og samfelldrar þjónustu við fólk með geðrænan vanda.

Samráðsvettvangur geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu er lýðræðislegur vettvangur samtaka og úrræða fyrir fólk með geðræna erfiðleika í Reykjavík og nágrannabyggðarlögum. Markmið vettvangsins er að efla samvinnu, stuðla að samfellu og skapa yfirsýn yfir starfsemina hverju sinni. Í hópnum sitja fulltrúar Dvalar í Kópavogi, Geðhjálpar, Geðverndarfélags Íslands, Hlutverkaseturs, Handarinnar, Klúbbsins Geysis, Lækjar í Hafnarfirði og Vinjar í Reykjavík.

Sýn samráðsvettvangsins

Samráðsvettvangurinn vill leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að einstaklingsbundinni, þverfaglegri og samfelldri þjónustu við fólk með geðrænan vanda með samstarfi samráðsvettvangsins við þjónustuaðila í heilsugæslu og hjá sveitarfélögum. Um þetta var rætt á fundinum og hugmyndir hópsins um hvernig haga megi slíku samstarfi, sem snúa meðal annars að faglegri stefnumótun stjórnvalda með virkri þátttöku hlutaðeigandi ráðuneyta, stofnana, fagfólks, notenda og aðstandenda.

Af einstökum tillögum samráðsvettvangsins má nefna tillögu um að binda samstarf ríkis og sveitarfélaga í lög til að tryggja framgang samfelldrar þjónustu, tillögur um að tryggja að notendur komi ætíð að stefnumótun og séu hluti af starfsliði stofnana og eininga á sviði geðheilbrigðisþjónustu með svipuðum hætti og í nágrannalöndunum og tillögu um gjaldfrjáls námskeið fyrir verðandi foreldra um almenna umönnun barna, auk fræðslu sem lýtur að ýmsum þáttum tengdum uppvaxtarskilyrðum barnanna og andlegu og líkamlegu heilbrigði á fullorðinsárum.

Samráðsvettvangurinn gerir einnig ýmsar tillögur sem lúta að skipulagi og þjónustu geðheilsuteyma heilsugæslunnar, með áherslu á notendasamráð og ráðningu fólks með notendareynslu til að sinna jafningjastuðningi innan teymanna. Einnig leggur samráðsteymið áherslu á að þétt samvinna verði á milli geðheilsuteyma heilsugæslunnar, sveitarfélaganna og annarra úrræða.

Ráðherra fagnar vilja til samstarfs

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fagnar vilja samráðsvettvangsins til samstarfs og segir mikilvægt að hafa fengið góða kynningu á hugmyndum þeirra og tillögum um aukið samráð og bætta þjónustu: „Það er skýr vilji stjórnvalda að efla geðheilbrigðisþjónustuna til muna, með auknum fjármunum, betra aðgengi og fjölbreyttari úrræðum. Aðkoma notenda að þessu mikilvæga verkefni er af hinu góða og raunar bráðnauðsynleg. “ segir Svandís.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira