Hoppa yfir valmynd
29. maí 2018 Matvælaráðuneytið

Harðfisksúpa valin þjóðlegasti rétturinn!

Sigurvegarinn og forsetafrúin - mynd

Í gærkvöldi afhenti Eliza Reid, forsetafrú og verndari kokkalandsliðsins verðlaun í samkeppninni „Þjóðlegir réttir á okkar veg“ sem Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn stóðu fyrir. Harðfisksúpan hans Baldurs Garðarssonar var valinn besti þjóðlegi rétturinn og er hún vel að sigrinum komin. Vinsælasti rétturinn í netkosningu var Fjallagrasa brulee en höfundurinn að þeirri uppskrift er Jóhanna María Sigmundsdóttir. Meðal annarra rétta sem fengu sérstaka viðurkenningu voru íslenskt ramen gert úr rófunúðlum, kjöti og grænmeti, brauðsúpa sem varð að ábæti, rófugrautur og nesti smaladrengsins.

Alls bárust 107 afar fjölbreyttar hugmyndir og uppskriftir og voru þær ýmist hefðbundnar eða innblásnar af nýjustu straumum í matargerð. Nemendur og kennarar við Hótel- og matvælaskólann völdu 15 rétti sem kepptu til undanúrslita og fengu þeir að útfæra og þróa réttina eftir sínu höfði. 16 veitingastaðir vítt og breitt um landið munu síðan velja sér einn eða fleiri rétti til að hafa á matseðlum sínum frá og með miðjan júní.

Megin tilgangur keppninnar var að efla áhuga, stolt og þekkingu á íslensku hráefni og matarmenningu. Hér á Íslandi er aukin vakning fyrir tækifærum sem tengjast matarauðnum okkar. Innlend framleiðsla er mikilvæg í tengslum við mataröryggi og sótspor, en ekki síður til að viðhalda atvinnutækifærum og matarmenningu.

Við Íslendingar erum fyrirmyndir erlendra gesta þegar kemur að framboði matar. Okkar neysluhegðun og orðræða mótar eftirspurn og væntingar. Því er það mikilvægt að við séum stolt af gæðum og fjölbreytileika  matarauðsins okkar.

  • Harðfisksúpa - mynd
  • Fjallagrasabrulee - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum