Hoppa yfir valmynd
29. maí 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðherrar ræða um framtíð íslenskukennslu við Kaupmannahafnarháskóla

Áform Kaupmannahafnarháskóla um að hætta að kenna íslensku var efni símafundar menntamálaráðherra Danmerkur, Tommy Ahlers og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í gær. Fréttir bárust þess efnis í liðinni viku að vegna niðurskurðar hugvísindadeildar Kaupmannahafnarháskóla lægi fyrir að valgreinar í forn- og nútímaíslensku yrðu lagðar niður við skólann vegna þess að nemendafjöldi þar væri undir nýjum lágmarksviðmiðum.

Ráðherrarnir ræddu næstu skref í málinu og lýstu báðir yfir vilja sínum til að finna á því lausn sem miði að því íslenska verði áfram kennd við skólann. Menningarleg tengsl landanna og farsælt samstarf á sviði tungumála, rannsókna og varðveislu menningarminja skipti báðar þjóðir miklu. Ahlers gat þess að fyrirhugaður væri fundur þar sem fulltrúar danska menntamálaráðuneytisins myndu ræða málið við rektor Kaupmannahafnarháskóla og þar gæfist tækifæri til þess að koma sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda á framfæri.

„Við eigum afar gott samstarf við Dani á fjölmörgum sviðum, meðal annars um tungumálanám og ýmis mikilvæg menningarsamskipti. Ég tel mjög brýnt að við leitum allra leiða til þess að tryggja að námsframboð í íslensku verði áfram gott við Kaupmannahafnarháskóla – sá skóli er ein elsta menntastofnun Norður-Evrópu og eini danski háskólinn þar sem boðið er upp á nám í íslensku. Þar er einnig varðveittur hluti handritasafns Árna Magnússonar. Handritin eru ómetanlegar þjóðargersemar sem geyma sameiginlega sögu beggja landa – en forsenda þess að við getum varðveitt þau, lært af þeim og miðlað til komandi kynslóða er haldgóð þekking á íslensku máli,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum