Hoppa yfir valmynd
1. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Undirbúningur skýrslu um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Frá samráðsfundi um Barnasáttmálann - myndVelferðarráðuneytið

Dómsmálaráðherra skipaði í apríl síðastliðinn vinnuhóp með fulltrúum fimm ráðuneyta, til að vinna að skýrslu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálann) og fylgja henni eftir hjá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.  Í skýrslunni verður yfirsýn yfir framkvæmd Barnasáttmálans og hvernig hefur tekist að fullnægja þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í sáttmálanum hér á landi.

Vinnuhópurinn er skipaður sérfræðingum úr dómsmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Hópurinn leggur ríka áherslu á að eiga víðtækt samráð við gerð skýrslunnar, bæði við börn og alla sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum barna. Haldinn var opinn samráðsfundur um skýrsluna fyrir alla áhugasama 14. maí síðastliðinn. Einnig gafst kostur á að senda skriflegar ábendingar í gegnum samráðsgátt.

Sérstakur samráðsfundur með fulltrúum barna var haldinn 29. maí. Tilgangurinn er að ná fram röddum barna um réttindi þeirra í íslensku samfélagi. Fyrirkomulag fundarins var byggt á hugmyndafræði um lýðræðiskaffi (e. world café) og var þátttakendum skipt í hópa eftir aldri. Fundurinn heppnaðist ljómandi vel en til hans kom breiður hópur barna á aldrinum 10-18 ára kom til fundar við hópinn og ræddi á opinskáan og lausnamiðaðan hátt um réttindi barna, hvað sé gott og hvað þurfi að laga í íslensku samfélagi í málefnum barna. Meðal þess sem stendur upp úr eftir fundinn er hve mikla réttlætiskennd börnin hafa og hvað þau sýna mikla samhygð með öðrum börnum. Einnig kom vel í ljós á fundinum hve oft gleymist að hlusta á börn og gefa þeim tækifæri til þess að hafa áhrif á mál sem varða þau með einum eða öðrum hætti.

Auk samráðsfundarins var sendur út spurningalisti til ungmennaráða sveitarfélaga. Nefndin vill hvetja öll börn undir 18 ára aldri til að fylla út spurningalistann.

Svör við spurningalistanum þurfa að berast fyrir lok dags 6. júní 2018.

  • Undirbúningur skýrslu um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum