Hoppa yfir valmynd
14. júní 2018 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Innflutningur á upprunatengdum ostum

Með vísan til umræðu um innleiðingu á auknum tollkvótum vegna innflutnings á upprunatengdum ostum vegna tollasamnings Íslands við Evrópusambandið vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri. 

Tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins var undirritaður 17. september 2015. Með samþykkt þingsályktunar utanríkisráðherra hinn 13. september 2016 heimilaði Alþingi ríkisstjórn Íslands að staðfesta samninginn.

Í samningnum er kveðið á um tollkvóti fyrir upprunatengda osta verði stóraukinn á næstu árum og fari úr 20 tonnum í 230 tonn á árunum 2018-2021. Þannig verði tollkvótinn aukinn í 57 tonn við gildistöku samningsins 1. maí 2018, 130 tonn árið 2019, 185 tonn árið 2020 og loks 230 tonn árið 2021. Fyrir liggur að tollkvóta þessa árs, alls 57 tonn, hefur þegar verið úthlutað og er hann þannig tæplega þrefalt hærri en í fyrra. Þá var einnig samið um að auka tollkvóta á almennum ostum úr 80 tonnum í 380 tonn á næstu fjórum árum. Tollkvóti þessa árs í almennum ostum hefur þegar verið boðinn út og hækkar úr 80 tonnum í 130 frá því í fyrra.

Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp sem heimilaði ríkisstjórn Íslands að staðfesta búvörusamninganna kom fram að meiri hluti nefndarinnar hefði sammælst um það við þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum (upprunatengdum ostum). Nánar tiltekið með þeim hætti að innleiðingin komi til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma tollasamningsins þannig að tollkvótinn yrði 230 tonn árið 2018. Í áliti nefndarinnar segir meðal annars „Meiri hlutinn telur ljóst að innlend framleiðsla þarf aukinn aðlögunartíma fyrir viðlíka breytingu á innflutningi mjólkurvara og að einnig þarf samhliða að leita eftir auknum heimildum til aðgangs að innri markaði Evrópusambandsins. Samningur milli Íslands og Evrópusambandsins er tvíhliða þannig að á móti innflutningi áttu að koma aðgangsheimildir að markaði Evrópusambandsins.“

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði í apríl 2018 fram frumvarp um að hraða innleiðingu á auknum tollkvótum vegna innflutnings á upprunatengdum ostum í samræmi við fyrrgreindan vilja nefndarinnar. Við meðferð málsins hjá atvinnuveganefnd komst meirihluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að frumvarpið myndi að óbreyttu raska samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu og þyrfti hún því lengri aðlögunartíma en frumvarpið gerði ráð fyrir.  Því var ákveðið að innleiða umrædda tollkvóta á fjórum árum líkt og upphaflega var ráðgert í tollasamningnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira