Hoppa yfir valmynd
19. júní 2018 Félagsmálaráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tæpum 100 milljónum króna úthlutað úr Jafnréttissjóði Íslands 19. júní

Tæpum 100 milljónum króna úthlutað úr Jafnréttissjóði Íslands 19. júní - myndVelferðarráðuneytið - ljósmynd Bigs Gunnarsson

Í dag var styrkjum úr Jafnréttissjóði Íslands úthlutað við hátíðlega athöfn á Hótel Borg. Að þessu sinni hlutu 28 umsækjendur styrk til verkefna og rannsókna sem er ætlað að efla kynjajafnrétti í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. „Börn á tímum kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni: Rannsóknir og aðgerðir", verkefni Önnudísar Grétu Rúdólfsdóttur, hlaut hæsta styrkinn, samtals 10 milljónir króna. Næsthæsta styrkinn, níu milljónir króna, hlaut Arnhildur Gréta Ólafsdóttir fyrir gerð heimildarmyndarinnar „Full Steam Ahead.“

Við athöfnina fluttu ávörp þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. Katrín sagði meðal annars við þetta tækifæri að hún persónulega eigi mikið undir þeim tækjum sem innleidd hafi verið hér í þágu jafnréttis, því án fæðingarorlofs karla og kvenna og almennra leikskóla hefði verið þrautinni þyngra fyrir hana að taka þátt í stjórnmálum samhliða því að byggja upp fjölskyldu: „Og í hvert skipti sem ég ræði við konur sem búa í löndum þar sem þessi mál hafa ekki verið tekin föstum tökum fyllist ég þakklæti í garð þess baráttufólks sem ruddi veginn hér á landi.“

Ásmundur Einar óskaði viðstöddum til hamingju með daginn og færði þakkir þeim konum sem unnið hafa ötullega í þágu jafnréttis gegnum tíðina: „Í dag þökkum við þeim konum sem höfðu kjark til vinna að nauðsynlegum breytingum á íslensku samfélagi – eins og við öll vitum er sterk kvennahreyfing er nauðsynlegt afl til að knýja fram breytingar á sviði jafnréttismála. Fleira þarf þó einnig að koma til og skipta rannsóknir og kortlagning á stöðu og þróun kynjajafnréttis ekki síður miklu máli.”

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður 19. júní 2015 með samþykki þingsályktunar 13/144 í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Megintilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 milljónir króna á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020.

Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs Íslands nr. 365/2016. Í samræmi við ályktun Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

Í ár bárust alls 85 umsóknir og var heildarfjárhæðin sem sótt var um rúmar 520 milljónir króna. Að þessu sinni hlutu 28 umsækjendur styrk til verkefna og rannsókna sem hafa að markmiði að efla kynjajafnrétti í samfélaginu.

 

  • Frá afhendingu styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands 2018

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira