Hoppa yfir valmynd
25. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundi EFTA á Sauðárkróki lokið

Ráðherrar og framkvæmdastjóri EFTA á fundinum í dag - myndEFTA

Fríverslunarsamningur við Ekvador og uppfærður fríverslunarsamningur við Tyrkland voru undirritaðir á ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu sem haldinn var á Sauðárkróki í dag. Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra stýrði fundinum en Ísland fer með formennsku í EFTA um þessar mundir. Fríverslunarviðræður EFTA, viðsjár í alþjóðaviðskiptum, samskipti EFTA við Evrópusambandið og útganga Breta úr ESB voru efst á baugi á fundinum.

Auk Guðlaugs sóttu fundinn ráðherrar frá hinum EFTA-ríkjunum: Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, Torbjørn Røe Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Johann N. Schneider-Amman, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.

Fundur EFTA-ráðherranna

Ráðherrar EFTA-ríkjanna komu saman til fundar í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Á fundinum ítrekuðu ráðherrarnir vilja sinn til að standa vörð um frjáls milliríkjaviðskipti byggðum á gagnsæi og skýrum leikreglum. Um leið létu þeir í ljós áhyggjur af aukinni spennu og vaxandi tilhneigingar til verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum. Þá lögðu þeir áherslu á mikilvægi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og að deilur um milliríkjaviðskipti væru leiddar til lykta á þeim vettvangi.

EFTA-fundur á Sauðárkróki 

Ráðherrarnir ræddu jafnframt fríverslunarmál og þá ekki síst stöðu og horfur í yfirstandandi fríverslunarviðræðum. Lýstu þeir sérstakri ánægju með upphaf viðræðna við tollabandalag Suður-Afríkuríkja (SACU) um uppfærslu gildandi fríverslunarsamnings og létu í ljós von um að viðræður við Chile um uppfærslu á núgildandi samningi gætu hafist fljótlega á ný. 

Samskipti EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið voru jafnframt til umræðu, sérstaklega í ljósi yfirvofandi útgöngu Breta úr ESB. Ráðherrarnir lýstu yfir vilja til að viðhalda nánu viðskiptasambandi EFTA-ríkjanna og Bretlands og í því skyni væru þeir reiðubúnir til að aðstoða við að koma á bráðabirgðafyrirkomulagi á viðskiptum við Breta uns þau mál hefðu verið til lykta leidd til frambúðar. „Við áttum afar góðar viðræður um Brexit enda eru öll EFTA-ríkin á einu máli um hve áríðandi það sé að vel takist til við útgöngu Breta úr ESB. Þýðing þess verður ekki ofmetin.“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra og rifjaði upp um leið að fyrr í mánuðinum ákváðu EES-ríkin þrjú í EFTA að hefja sameiginlega kortlagninu á hagsmunum sínum vegna Brexit.

Fríverslunarsamningur við Ekvador

Áður en sjálfur ráðherrafundurinn hófst voru undirritaðir annars vegar nýr fríverslunarsamningur EFTA og Ekvadors og hins vegar uppfærður fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland. Skrifað var undir samningana á Hólum í Hjaltadal.

Tvö ár eru síðan samningaviðræður við Ekvador hófust en það er sjötta ríki Rómönsku Ameríku sem EFTA gerir fríverslunarsamning við. Pablo Campana Sáenz, utanríkisviðskiptaráðherra Ekvadors, undirritaði samninginn fyrir hönd ríkisstjórnar Ekvador.

„Viðræðurnar hafa frá byrjun verið uppbyggilegar og einkennst öðru fremur af samvinnu og skilvirkni. Sú staðreynd að okkur hefur tekist að ljúka svo viðamiklum samningi í aðeins fimm lotum sýnir bæði pólitískan vilja beggja aðila og fagmennsku og elju þeirra sem önnuðust samningagerðina,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson. „Þessi samningur tekur til allra sviða nútíma fríverslunarsamnings og EFTA-ríkin eru sammála um að með honum sé grunnur lagður að auknum viðskiptum og fjárfestingum. Við erum sannfærð um að þessi samningur skapi viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki bæði í Ekvador og EFTA-ríkjunum.“

Samningurinn tekur til ýmissa sviða, meðal annars vöru- og þjónustuviðskipta, hugverkaréttar, samkeppnismála og sjálfbærrar þróunar. Heildarviðskipti EFTA-ríkjanna við Ekvador námu í fyrra jafnvirði 27 milljarða króna. Helstu útflutningsvörur EFTA-ríkjanna til Ekvadors eru lyf og skyldur varningur. Ávextir eru aðalútflutningsvara Ekvadors en landið er einn stærsti bananaframleiðandi í heimi.

Uppfærsla fríverslunarsamnings við Tyrkland

Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, skrifaði undir uppfærðan fríverslunarsamning við EFTA fyrir hönd tyrkneskra stjórnvalda.

Fríverslunarsamningur Tyrklands og EFTA gekk í gildi vorið 1992 og er hann því elstur núgildandi fríverslunarsamninga EFTA við þriðja ríki. Viðræður um uppfærslu samningsins hófust í september 2014 og lauk eftir sex samningalotur rúmum þremur árum síðar. Uppfærði samningurinn tekur meðal annars til vöru- og þjónustuviðskipta, upprunavottunar, verndar hugverkaréttar og sjálfbærrar þróunar. Þá inniheldur samningurinn ákvæði um mannréttindamál þar sem ítrekuð er skuldbinding Tyrkja við stuðning við lýðræði, réttarríkið og mannréttindi í samræmi við þá alþjóðasáttmála sem þeir eiga aðild að.

Uppfærður fríverslunarsamningur við Tyrkland

„Þótt fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland hafi staðist tímans tönn var orðið tímabært að uppfæra hann enda hefur margt breyst á þeim aldarfjórðungi síðan hann var undirritaður. Í þessum uppfærða samningi felast fjölmörg ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Þá tel ég afar mikilvægt að nú er að finna í samningnum sérstök ákvæði um mannréttindamál en sem kunnugt er hafa íslensk stjórnvöld ítrekað gagnrýnt Tyrkland fyrir stöðu mannréttindamála í landinu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Snemma í morgun áttu þeir Guðlaugur Þór og Zeybekci tvíhliða fund á Hofstöðum í Skagafirði um ýmis málefni, þar á meðal mál Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa látist í átökum í Afrin-héraði í Sýrlandi fyrr á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira