Hoppa yfir valmynd
26. júní 2018 Félagsmálaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þátttaka Íslands í ráðstefnu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um jafnréttismál

Frá ráðstefnu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um jafnréttismál - mynd

Dagana 19.-21. júní fór fram önnur ráðstefna Efnahags- og framafarastofnunarinnar (e. Organisation for Economic Cooperation and Development - OECD) um jafnréttismál í samstarfi við austurrísk stjórnvöld. Sú fyrsta var haldin í samstarfi við íslensk stjórnvöld árið 2017 eftir að aðildarríki OECD mörkuðu sér sína fyrstu stefnu í jafnréttismálum árið 2015.

Þema ráðstefnunnar var hvernig megi með víðtækari og kerfisbundnari hætti ná fram markmiðum jafnréttis með aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar og samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda.

Auk framsögumanna frá OECD voru sérfræðingar og fræðimenn frá öðrum alþjóðastofnunum og aðildarlöndum með erindi (sjá dagskrá).

Herdís Sólborg Haraldsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu var meðal fundarstjóra og íslenskir frummælendur voru þau Kristján Andri Stefánsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá OECD, Haldóra Friðjónsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um kynjaða fjárlagagerð, Hlynur Hallgrímsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Magnea Marinósdóttir, sérfræðingur í jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins og formaður verkefnisstjórnar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Þau gerðu grein fyrir þróun og stöðu málaflokksins á Íslandi, sem litið er til sem fyrirmyndar í kynjajafnréttismálum. Fjallað var um áskoranir og tækifæri, m.a. hvernig lögin um opinber fjármál frá árinu 2015 hafa skapað grundvöll fyrir vandaðri stefnumótun og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við greiningu og stefnumótun á málefnasviðum og í málaflokkum Stjórnarráðsins. Hlynur Hallgrímsson gerði í því sambandi grein fyrir niðurstöðu verkefnis kynjaðrar fjárlagagerðar um áhrif samsköttunar á konur og karla og hvernig sú vinna getur nýst við endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfisins hjá einstaklingum og fjölskyldum.

OECD kynnti fyrstu árangursúttekt sína á kynjaðri stjórnsýslu, stefnumótun og fjárlagagerð sem gerð var í Kanada í samstarfi við þarlend stjórnvöld (e. Gender Equality in Canada: Mainstreaming, Governance and Budgeting). Niðurstöðurnar, sem gefa mynd af stöðu samþættingarmála þar í landi, verða hagnýttar af stjórnvöldum sem leiðarvísir til að lagfæra það sem betur má fara og festa í sessi það sem vel er gert. Jafnframt kynnti OECD niðurstöðu könnunar á stöðu kynjaðrar fjárlagagerðar, hagstjórnar og samþættingar í aðildarlöndunum auk samanburðar milli landa sem gefur gott  yfirlit um stöðu mála innan OECD.

Lokahluti ráðstefnunnar fjallaði um stefnumótun á sviði baráttunnar gegn kynbundu ofbeldi þar sem frummælendur gerðu grein fyrir vinnu við forvarnir og þjónustu við þolendur og gerendur. Ýmislegt markvert kom fram m.a. að þolendur ofbeldis í nánum samböndum í Ástralíu eiga rétt á fimm daga leyfi frá vinnu til að geta t.d. mætt fyrir rétt í eigin málaferlum og niðurgreitt húsnæði er í boði fyrir þolendur heimilisofbeldis í Rúmeníu sem liður í því aðstoða þá við að komast út úr vítahring ofbeldis. Í Kanada leiddi rannsókn blaðakonu fram að lögreglan sinnti tilkynningum um kynferðisofbeldis misjafnlega eftir svæðum. Í því sambandi greindi fulltrúi Íslands frá stöðluðu verklagi lögregluembætta á Íslandi um viðbrögð í heimilisofbeldismálum og samstarf við félagsmála- og barnaverndaryfirvöld, sem lögreglan á Suðurnesjum kom til leiðar í verkefninu að halda glugganum opnum og verið er að festa í sessi um land allt.

Stefnt er að því halda næstu jafnréttisráðstefnu OECD árið 2019.

Frá ráðstefnu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um jafnréttismál

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira