Hoppa yfir valmynd
29. júní 2018 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Samstaða um að Ísland taki sæti í mannréttindaráði SÞ

Mannréttindaráð SÞ í Genf - myndWikimedia Commons

Samstaða hefur náðst í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum að Ísland gefi kost á sér til að taka það sæti sem losnaði í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna við úrsögn Bandaríkjanna úr ráðinu nýverið. Því er gert ráð fyrir að Ísland verði eitt í kjöri í aukakosningum til ráðsins sem haldnar verða í allsherjarþinginu í næsta mánuði. 

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur aðsetur í Genf. 47 ríki sitja í ráðinu, þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja (WEOG). Fyrr í þessum mánuði sögðu Bandaríkin sig úr ráðinu og við það losnaði eitt af sætum Vesturlandahópsins. Fljótlega náðist samstaða innan hópsins um að Ísland gæfi kost á sér til að fylla sætið út tímabil Bandaríkjanna, til ársloka 2019. Ekki er búist við að önnur ríki bjóði sig fram í sérstökum aukakosningum sem haldnar verða í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um miðjan næsta mánuð. Einfaldan meirihluta atkvæða þarf til að ná kjöri.

„Ég er sannfærð um að nái Ísland kjöri eigum við eftir að standa fyllilega undir þeirri ábyrgð sem því fylgir að taka sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. „Ísland hefur getið sér gott orð fyrir framgöngu sína í mannréttindamálum, meðal annars höfum við beitt okkur fyrir jafnrétti kynjanna og réttindum hinsegin fólks svo eftir hefur verið tekið á alþjóðavísu.“ 

„Þrátt fyrir að hafa staðið utan mannréttindaráðsins hefur Ísland látið þar að sér kveða í krafti áheyrnaraðildar. Sjálfur hef ég ávarpað mannréttindaráðið í tvígang, fyrstur íslenskra utanríkisráðherra, síðast í vor þar sem ég áréttaði gagnrýni á stjórnvöld á Filippseyjum. Stuðningur vinaþjóða okkar við að Ísland taki sæti í ráðinu felur í sér viðurkenningu á okkar störfum þar hingað til,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra. 

„Sú staðreynd að Ísland njóti stuðnings Vesturlandahópsins til að taka sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna er tvímælalaust til marks um góða stöðu mannréttindamála á Íslandi. Við höfum svo sannarlega margt fram að færa í þessum efnum,“ segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna var sett á fót árið 2006 og byggir á grunni mannréttindanefndar SÞ sem starfaði frá 1946. Hlutverk þess er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum SÞ, fjalla um mannréttindabrot og beinir ráðið með ályktunum sínum tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum. 

Mannréttindaráðið fundar þrisvar á ári í föstum fundarlotum 3-4 vikur í senn. Þess utan kemur það saman til að ræða einstök brýn mannréttindamál. Þá fjallar ráðið um ástand mannréttinda í einstökum aðildarríkjum SÞ með svokallaðri allsherjarúttekt.

Engin útgjöld hafa fylgt framboði Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Fari svo að Ísland fái sæti í ráðinu kemur það aðallega í hlut fastanefndar Íslands í Genf að sinna þeim verkefnum sem því fylgir. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum