Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2018 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aukið samstarf Íslands og Japan á sviði mennta- og vísindamála

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og og hr. Toshiei Mizuochi, ráðherra mennta- og vísindamála Japana - mynd
Aukin samvinna á sviði mennta- og vísindamála og málefni norðurslóða voru aðalefni fundar Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og hr. Toshiei Mizuochi, ráðherra mennta- og vísindamála Japana, í Reykjavík í dag. Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir meðal annars mikilvægi skiptináms á háskólastigi og góðra menningartengsla, jafnréttismál og möguleika þess að koma á formlegum samstarfssamningi ríkjanna á sviði tækni og vísinda en það hafa Norðmenn, Svíar og Danir þegar gert. Í gildi eru 34 samstarfssamningar milli íslenskra háskóla og háskóla í Japan en íslenskir og japanskir vísindamenn hafa sameiginlega birt um 300 vísindagreinar, m.a. á sviði erfðafræði, jarðfræði, stærðfræði, tölvunarfræði, stjörnufræði og eðlisfræði.

„Japanir hafa sýnt því mikinn áhuga að við aukum samstarf okkar á sviði vísinda- og tæknimála, einkum er varðar málefni norðurslóða og þar eru sannarlega mörg spennandi sóknarfæri. Íslensk stjórnvöld eiga í góðu samstarfi við Japani um ýmis málefni, til dæmis á vettvangi Norðurskautsráðsins þar sem Ísland mun taka við formennsku næsta vor. Þar hafa Japanir átt áheyrnarfulltrúa sl. fimm ár en innan ráðsins er vilji til þess að styrkja og dýpka samstarf og þátttöku áheyrnarríkja,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra að fundi loknum.
Kveðið er á um mikilvægi norðurslóða í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eru málefni þeirra forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Á vettvangi Norðurskautsráðsins leggur Ísland sérstaka áherslu á loftslagsmál, málefni hafsins og þátttöku og velferð íbúa á norðurslóðum en aukin alþjóðasamvinna á sviði rannsókna og vöktunar á svæðinu skiptir lykilmáli svo stjórnvöld geti brugðist sem best við þeim áskorunum sem við blasa á þeim vettvangi.

Þess má geta að Japanska heimskautarannsóknastofnunin rekur rannsóknarstöðvar á Suðurskautinu og á Svalbarða sem og ómannaðar norðurljósarannsóknarstöðvar á Tjörnesi og í Húsafelli.
  • Aukið samstarf Íslands og Japan á sviði mennta- og vísindamála - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum