Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi

Starfsfólk ráðuneytisins fagnaði áfanganum í dag.  - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur lokið fimmta og síðasta skrefi grænna skrefa í ríkisrekstri og hlotið vottun umhverfisstjórnunarkerfis ráðuneytisins samkvæmt ISO-14001 staðli. Ráðuneytið er fyrsta ráðuneyti Stjórnarráðsins sem lýkur slíkri vottun.

Markmið umhverfisstjórnunarkerfisins er að fylgjast reglubundið með frammistöðu ráðuneytisins í umhverfismálum og greina, lágmarka og stýra óæskilegum umhverfisáhrifum. Til að fylgjast með framgangi mála setur ráðuneytið sér áætlanir og markmið í umhverfismálum auk þess að fylgjast sérstaklega með umhverfisþáttum í gegn um grænt bókhald og reglubundnar innri úttektir. Því er svo fylgt eftir með úttektum og vottun viðurkenndra úttektaraðila.

Umhverfisstjórnunarkerfið sem nú hefur verið vottað nær yfir starfsemi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar með talið stefnumótun og lagasetningu auk daglegs rekstrar ráðuneytisins, s.s. hvað varðar samgöngur, innkaup, orkunotkun, sorpflokkun og efnanotkun. Auk þess nær umhverfisstjórnunarkerfið til þeirra hagsmunaaðila og annarra þátta sem geta haft áhrif á að ráðuneytið nái ekki markmiðum sínum í umhverfismálum.

„Ég er ákaflega ánægður með að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi náð þessum áfanga enda mikilvægt að það gangi á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfis- og loftslagsmálum og verðum í sameiningu að gera allt sem við getum til að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum. Allt sem við gerum skiptir máli og öll verðum við að leggjast á árarnar: einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir.“

                       

Skírteini BSI (British Standards Institution) fyrir vottun umhverfisstjórnunarkerfis samkvæmt ISO 14001:2015 staðlinum (pdf-skjal)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira