Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2018 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra styrkir LÝSU; lýðræðishátíð Almannaheilla

Ásmundur Einar ásamt Katli Berg Magnússyni, formanni Almannaheilla og Vilhjálmi Bjarnasyni sem situr í stjórn samtakanna - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur gert samkomulag við Almannaheill – samtök þriðja geirans, um fjögurra milljóna króna styrkveitingu til samtakanna.  Meginmarkmið samkomulagsins er að styrkja Almannaheill við framkvæmd lýðræðishátíðarinnar LÝSU/Fundar fólksins.

LÝSA er nýtt heiti þeirrar lýðræðishátíðar sem haldin hefur verið hér á landi frá árinu 2015, í anda sambærilegra hátíða sem hafa fest sig í sessi annars staðar á Norðurlöndunum undanfarna áratugi, svo sem Almendalsveckan á Gotlandi í Svíþjóð, Folkemødet á Bornholm í Danmörku og Arendalsuka í Noregi.

„Rokkhátíð samtalsins“

Markmið lýðræðishátíðarinnar er að skapa vettvang fyrir vandaða umræðu um öll möguleg málefni samfélagsins og virkja samtal milli almennings og stjórnmálamanna: „Þessi hátíð hefur nú fest sig í sessi og hún á örugglega eftir að halda áfram að vaxa og dafna með ári hverju. Forsvarsmenn hátíðarinnar kalla þetta rokkhátíð samtalsins og það held ég lýsi vel stemmningunni í kringum hátíðina. Þarna er fjör og gaman, en líka þungur undirtónn af því að þarna fer fram samtal sem skiptir máli“ segir Ásmundur Einar Daðason.

LÝSA 2018 verður haldin 7. og 8. september í Hofi á Akureyri.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira