Hoppa yfir valmynd
1. september 2018 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um vinnudvöl ungs fólks í Japan og á Íslandi tekur gildi

Frá stofnun ferðasjóðsins - myndUtanríkisráðuneytið

Í dag tekur gildi samkomulag um gagnkvæm tímabundin atvinnuréttindi ungs fólks á milli Japans og Íslands. Samkomulagið var undirritað í maí síðastliðnum á vinnufundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Taro Kono, utanríkisráðherra Japans. 

Samkomulagið gerir ungu fólki frá Japan og Íslandi kleift að sækja um skammtíma dvalarleyfi sem gerir þeim kleift að taka að sér tilfallandi vinnu meðan á tímabundinni dvöl í hinu landinu stendur. Þannig fær ungt fólk mikilvæga innsýn í menningarhætti og atvinnulíf í fjarlægu landi. „Það er gleðiefni að hafa undirritað samkomulag sem gerir íslenskum og japönskum ungmennum kleift að dvelja í hinu ríkinu til að vinna og kynnast samfélaginu,“ sagði Guðlaugur Þór við tilefnið. 

Fyrir er Japan með slíka samninga við tuttugu lönd í Asíu, Eyjaálfu og Evrópu ásamt Norður- og Suður-Ameríku. Ísland er þrettánda Evrópulandið sem gerir slíkt samkomulag við Japan og þriðja innan Norðurlandanna, á eftir Danmörku og Noregi.

Allar upplýsingar um skilyrði og umsóknarferli er nú að finna á vef Sendiráðs Japans (fyrir íslenska ríkisborgara) og á vef Útlendingastofnunar (fyrir japanska ríkisborgara). Umsækjendur þurfa m.a. að vera íslenskir eða japanskir ríkisborgarar og á aldrinum 18-26 ára. en fyrsta árið verða gefin út allt að þrjátíu slík leyfi í hvoru landi.

Við undirritun samkomulagsins var stofnaður ferðasjóður á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Íslenska viðskiptaráðsins í Japan og Japansk-íslenska viðskiptaráðsins, með framlögum frá átta fyrirtækjum. Úr ferðasjóðinum verða veittir styrkir fyrir flugfargjöldum einstaklinga sem nýta sér samkomulagið.

Fyrirtækin sem standa að sjóðinum eru Össur, Icelandic Japan, Toyota á Íslandi, Hvalur hf., Hampiðjan Japan, Global Vision, Viking og Takanawa. Japansk-íslenska viðskiptaráðið sér um að auglýsa umsóknarferli og úthlutanir styrkja

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira