Hoppa yfir valmynd
7. september 2018 Félagsmálaráðuneytið

Ráðherrar og sveitarfélög lýsa yfir samstarfi á sviði barnaverndar

Frá vinstri: Sigurður Ingi Jóhannesson, Sigríður Anderssen, Ásmundur Einar Daðason, Svandís Svavarsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur boðað endurskoðun á barnaverndarlögum, félagslegri umgjörð í málefnum barna og þjónustu við börn á landsvísu. Markmið endurskoðunarinnar er að tryggja að börn verði sett í forsæti í allri nálgun, tryggja snemmtæka íhlutun og samfellu í þjónustu.

Með þetta markmið að leiðarljósi var að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun undirrituð viljayfirlýsing ráðherra félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aukið samstarf á þeim málefnasviðum sem undir þessa aðila heyra og snúa að velferð barna. Í yfirlýsingunni felst að ráðherrarnir og ráðuneyti þeirra munu vinna saman að því að brjóta niður múra sem kunna að myndast á milli kerfa þegar tryggja þarf börnum heildstæða og samhæfða þjónustu.

Félags- og jafnréttismálaráðherra hyggst auk þessa stofna nefnd þingmanna með fulltrúum allra þingflokka, þar sem kraftar verða sameinaðir með það að markmiði að styrkja og samhæfa þjónustu við börn, tryggja að hún verði veitt þegar þörf krefur, sjá til þess að þjónustan verði samfelld og gangi þvert á þjónustukerfi. Áhersla verður lögð á skýra ábyrgð og verkaskiptingu og að eftirfylgni þjónustu verði tryggð. Nefndin mun nýta upplýsingar sem teknar hafa verið saman um stöðu og þróun í þjónustu við börn og leggja fram tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og framkvæmd þjónustunnar til að ná fyrrgreindu markmiði. Sérstakur verkefnastjóri auk þverfaglegs hóps sérfræðinga frá hlutaðeigandi ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga mun starfa með þingmannanefndinni.

Miklar væntingar eru til þeirrar vinnu sem framundan er, en aukið samstarf er lykilþáttur  við endurskoðun núverandi kerfis, þjónustunnar og úrræða fyrir börn. Ásmundur Einar, félags- og jafnréttismálaráðherra, segist sannfærður um að allar aðstæður séu fyrir hendi til að skapa gott og barnvænt samfélag hér á landi: „Markmiðið er að árið 2030 verði hvergi í heiminum betra að vera barn en á Íslandi.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira