Hoppa yfir valmynd
11. september 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hlutfall háskólamenntaðra aldrei hærra á Íslandi – ný skýrsla um menntatölfræði

Árleg skýrsla OECD um menntatölfræði, Education at a Glance 2018 er komin út. Í skýrslunni er að finna margvíslegar upplýsingar um stöðu íslenska skólakerfisins, menntunarstig þjóðarinnar, fjármögnun skóla og skipulag skólastarfs.

Meðal þess sem fram kemur um íslenskt menntakerfi er:

• Á Íslandi eru fleiri karlar án framhaldsskólamenntunar á aldrinum 25-34 ára en í flestum öðrum vestrænum ríkjum.
• Háskólamenntuðum hefur fjölgað um 14 prósentustig á tíu árum frá 2007 og stendur Ísland jafnfætis Norðurlöndum í fjölda háskólamenntaðra.
• Hlutfall fólks sem er hvorki í vinnu, né í skóla eða starfsþjálfun er lágt í öllum aldurshópum og stendur Ísland að því leyti best að vígi í samanburði við önnur OECD lönd.
• Á árabilinu frá 2010 til 2015 var aukningin á útgjöldum á hvern nemanda til grunnskóla og framhaldsskóla um 14 prósentustig og á háskólastigi var aukningin um 27 prósentustig þegar tekið er mið af fjölda nemenda. Á Íslandi var aukningin talsvert meiri en á Norðurlöndunum og flestum löndum OECD.

Þema skýrslunnar að þessu sinni er tækifæri til náms þar sem sérstaklega er tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um menntun. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru meðal annars:

• Félagslegur bakgrunnur fólks hefur meiri áhrif á menntun þeirra eftir því sem líður á skólagönguna og starfsævina.
• Kynjamunur er konum í hag í menntakerfinu en körlum í hag í atvinnulífinu.
• Borgarar af erlendum uppruna eru líklegri til að hverfa frá námi og eiga erfiðara uppdráttar í atvinnulífinu.

Nánari greiningu á niðurstöðum um íslensk menntamál má finna í samantekt um efni skýrslunnar ásamt samanburði við helstu nágrannalönd okkar á Norðurlöndum.
Upplýsingar um efni skýrslunnar og talnaefni er að finna á vef OECD

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum