Hoppa yfir valmynd
27. september 2018 Félagsmálaráðuneytið

Ráðuneytið staðfestir niðurstöðu um að forstjóri Barnaverndarstofu hafi ekki farið út fyrir verksvið sitt

Velferðarráðuneytið í Skógarhlíð - myndVelferðarráðuneytið
Niðurstaða velferðarráðuneytisins á eigin ákvörðun í máli sem snéri að afskiptum Braga Guðbrandssonar í tilteknu barnaverndarmáli í Hafnarfirði liggur fyrir. Niðurstaðan er sú að Bragi hafi ekki farið út fyrir verksvið sitt með afskiptum sínum og að starfshættir hans í málinu sem forstjóri Barnaverndarstofu hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög.

Upphaf málsins má rekja til þess að ráðuneytið ákvað að kanna frekar ávirðingar sem bornar voru á forstjóra Barnaverndarstofu af hálfu barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar um að hann hefði gefið bein fyrirmæli í einstaka barnaverndarmálum. Framvinda málsins leiddi til þess að velferðarráðuneytið ákvað að skoða eitt tiltekið barnaverndarmál í Hafnarfirði. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að Bragi hefði ekki gerst brotlegur í starfi en að hann hefði farið út fyrir verksvið sitt og var honum tilkynnt formlega um þá niðurstöðu með bréfi dags. 27. febrúar.

Í maí á þessu ári tilkynnti forsætisráðuneytið að ákveðið hefði verið að láta gera óháða úttekt á tilteknum málum á sviði barnaverndar hér á landi sem verið höfðu til umfjöllunar í velferðarráðuneytinu og hjá velferðarnefnd Alþingis. Meðal þess sem úttektaraðilar tóku til skoðunar var umrætt Hafnarfjarðarmál. Niðurstaðan í því var í stuttu máli sú sem að framan greinir og enn fremur að málsmeðferð ráðuneytisins hefði ekki samræmst grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins um andmælarétt. Í kjölfarið felldi ráðuneytið úr gildi niðurstöðu sína frá 27. febrúar og tilkynnti Braga um það formlega með bréfi. Í sama bréfi var fallist á beiðni sem hann hafði þá lagt fram um að velferðarráðuneytið tæki umrætt mál upp að nýju.

Við endurupptöku málsins leitaði ráðuneytið eftir lögfræðilegri aðstoð utanaðkomandi aðila og fékk til þess Kristínu Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem fyrir lá að hún þekkti málavexti í ljósi vinnu sinnar við þá úttekt sem áður hafði farið fram samkvæmt ákvörðun forsætisráðuneytisins.

Niðurstaða velferðarráðuneytisins vegna endurupptökunnar sem þegar hefur verið rakin var tilkynnt Braga Guðbrandssyni með bréfi dagsettu 21. september síðastliðinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira