Hoppa yfir valmynd
5. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um fullnaðarhönnun rannsóknahúss við Hringbraut

Undirritun samnings um fullnaðarhönnun rannsóknahúss Landspítala - myndLandspítali

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra undirritaði í dag samning við Corpus3 hópinn um fullnaðarhönnun rannsóknahúss Landspítala. Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. 

Grímur Már Jónasson undirritaði samninginn fyrir hönd Corpus3 en hópurinn hefur einnig unnið að hönnun meðferðarkjarna Landspítalans. Í meðferðarkjarnanum verður bráðamóttaka sjúklinga, greining og meðferð en í rannsóknahúsinu verður sameinuð á einum stað öll rannsóknastarfsemi spítalans, bæði þjónusturannsóknir og hefðbundnar vísindalegar rannsóknir, lífssýnasöfnin verða þar til húsa og Blóðbankinn. Á rannsóknahúsinu er gert ráð fyrir þyrlupalli fyrir neyðarflug sem mun tengjast bráðastarfsemi spítalans. Rannsóknahúsið mun tengjast öðrum byggingum spítalans á sjálfvirkan hátt með tæknikerfum en einnig verður innangengt á milli bygginga í göngum eða yfir brýr. 

Svandís Svavarsdóttir sagði við undirritunina að sameining allrar rannsóknastarfsemi Landspítala á einum stað muni gjörbreyta allri umgjörð fyrir rannsóknastarfsemi spítalans: „Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er forgangsmál og nýtt rannsóknahús er þar mikilvægur áfangi.“ Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, tók í sama streng og sagði húsið verða algjöra byltingu í aðstöðu fyrir starfsfólk og fjölbreyttar vísindarannsóknir. Þess væri því beðið með mikilli eftirvæntingu að geta tekið það í notkun. 

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ofh. segir að samkvæmt áætlunum verði rannsóknahúsið tekið í notkun árið 2024. Með undirrituninni í dag sé stórum áfanga náð, enda rannsóknahúsið ein af meginbyggingum verkefnisins í heild. Aðrar byggingar eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin, nýtt sjúkrahótel, sem verður tekið í notkun á árinu og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.

Grímur Már sagði við undirritun samingsins að Corpus3 myndi nýta alla þá reynslu og þekkingu sem hópurinn hefði öðlast við hönnun meðferðarkjarna sjúkrahússins. Hönnun rannsóknahússins væri í senn ánægjulegt og krefjandi verkefni.

Horft er til þess að með tilkomu rannsóknahússins verði mikil samlegðaráhrif við Háskóla Íslands þar sem háskólinn muni reisa nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem verði tengt rannsóknahúsinu.

Um leið og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra óskaði Nýjum Landspítala ohf. og Corpus3 hópnum áframhaldandi góðs samstarfs færði hún þakkir öllum þeim sem komið hafa að verkefnunum; tæknifólki og klínísku starfsfólki spítalans. Á stundum sem þessum má ekki gleyma því að öll þessi uppbygging mun skila sér í enn betri þjónustu við sjúklinga. Sjúklingar og starfsfólk spítalans og Háskóla Íslands eru hornsteinar að því samfélagi sem er hér við Hringbraut. Við sem komum að verkefnum á annan hátt hlúum að því samfélagi og veitum því brautargengi og samningurinn sem nú er formfestur staðfestir það.

Kostnaðaráætlun vegna fullnaðarhönnunar rannsóknahúss er kr. 670.890.000 og var tilboð Corpus3 kr. 477.286.560, sem nemur 71,1% af kostnaðaráætlun.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira