Hoppa yfir valmynd
18. október 2018 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Breytingar á lögum um heimagistingu á samráðsgátt stjórnvalda

Norden.org / Johannes Jansson - mynd

Ferðamálaráðherra hefur birt á samráðsgátt stjórnvalda frumvarp til laga sem breytir ákvæðum varðandi heimagistingu. Breytingarnar sem lagðar eru til varða allar starfssvið Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem hefur umsjón með skráningu og eftirliti á heimagistingu. Frumvarpið verður í opnu samráði til 24. október nk.

Í fyrsta lagi er lagt til að skráning heimagistingar verði bundin við bæði þinglýst eignarhald og lögheimili en samkvæmt núgildandi löggjöf er skráningin eingöngu bundin við lögheimili. Með þeirri breytingu er markmiðið að koma í veg fyrir lögheimilisskráningar til málamynda.

Í öðru lagi er lagt til að sýslumaður geti lagt stjórnvaldssektir á þá sem reka leyfisskylda gististarfsemi án leyfis, en samkvæmt núgildandi löggjöf ber sýslumanni að senda slík brot áfram til viðkomandi lögreglustjóra. Sýslumaður hefur hins vegar heimild til að beita einstaklinga stjórnvaldssektum vegna brota á skráningarskyldu heimagistingar. Því hefur verið munur á málsmeðferð aðila sem leiðir til þess að búast má við að hærri sekt liggi við því að stunda stunda óskráða heimagistingu en ólöglega rekstrarleyfisskylda starfsemi í atvinnuskyni. Reynslan sýnir að sjaldan eru gefnar út ákærur í slíkum  málum heldur er þeim lokið með lögreglusekt. Markmiðið  er að koma í veg fyrir ólíkar niðurstöður vegna sambærilegra brota, flýta málsmeðferð og draga úr kostnaði sem hlýst af formlegri og kostnaðarsamri ákærumeðferð fyrir dómstólum.

Í þriðja lagi er lagt til að sýslumaður fái heimild til að beita stjórnvaldssektum ef aðili með skráða heimagistingu skilar ekki inn nýtingaryfirliti í samræmi við ákvæði laganna. Hann hefur til þessa ekki haft nein úrræði til að knýja fram skil á nýtingaryfirliti sem torveldar eftirlitshlutverk hans.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira