Hoppa yfir valmynd
23. október 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Miðstöð norðurslóðarannsókna opnuð í Reykjadal

Rannsóknastöðin á Kárhóli í Reykjadal er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana og var hún formlega tekin í notkun í gær að viðstöddum Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi. Rannsóknastöðin, China-Iceland Arctic Observatory (CIAO) er miðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir í alþjóðlegu samstarfi, s.s. í háloftarannsóknum, rannsóknum á gufuhvolfi og veðurfræði, líf- og vistfræði, haffræði, jöklafræði, jarðfræði, rannsóknum á loftslagsbreytingum og umhverfisrannsóknum, fjarkönnun og sjávarútvegsfræði.

„Þessi rannsóknarstöð skapar vettvang og tækifæri fyrir rannsakendur og vísindafólk hvaðanæva úr heiminum til þess að nýta íslenska náttúru og staðhætti til enn frekari rannsókna. Við vitum að þær áskoranir sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér kalla á aukið samstarf, ekki síst á vísindasviðinu. Viðbrögð okkar við þeim áskorunum munu skipta miklu fyrir lífsgæði framtíðarinnar og því brýnt að stefnumótun ríkja á svæðinu byggi á rannsóknum og gagnreyndri þekkingu, yfirsýn og góðri samvinnu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar segir að tilkoma rannsóknarstöðvarinnar sé ákveðin lyftistöng fyrir nærsamfélagið og kærkomin viðbót í flóru atvinnulífsins á svæðinu: „Það er mikilvægt að fá starfsemi af þessu tagi hingað í Þingeyjarsveit, við höfum unnið að því að fá fleiri störf tengd rannsóknum og þekkingarsköpun svo þetta er jákvætt fyrir samfélagið. Það geta líka skapast ýmis tækifæri með tilkomu rannsóknastöðvarinnar, til að mynda samstarf við þær stofnanir sem fyrir eru eins og Framhaldsskólann á Laugum sem og sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu.“

Sérstök áhersla verður lögð á kynningu á vísindastarfi miðstöðvarinnar, meðal annars fyrir börn og ungmenni. Þar verður vísindastofa opin almenningi þar sem fyrst í stað verður lagt upp með kynningu á norðurljósum og eðli þeirra. Ísland er einn ákjósanlegasti staðurinn á norðurhveli jarðar til að rannsaka norðurljós en Frakkar, Bretar og Japanir eru meðal þjóða sem stundað hafa rannsóknir hér á landi um árabil. Í rannsóknastöðinni verður góð aðstaða fyrir vísindamenn til mælinga og athugana á norðurljósum og er stöðin búin fullkomnum norðurljósamyndvélum, litrófsmælum, segulsviðsmælum og öðrum þeim búnaði sem nútíma rannsóknir á norðurljósum krefjast.

Að þessu verkefni koma Rannís, sem leiðir samstarfið fyrir hönd Íslands og PRIC, heimskautarannsóknastofnun Kína, sem leiðir samstarf við kínversku aðilana.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira