Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mannafla- og færniþörf á íslenskum vinnumarkaði verður betur greind

Ráðstefnan í myndrænum búningi - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, mun beita sér fyrir því að tillögur sérfræðingahóps um reglubundnar færnispár fyrir vinnumarkaðinn og betri greiningar á mannafla- og færniþörf nái fram að ganga. Þetta kom fram á ráðstefnunni Forskot til framtíðar sem haldin var fyrir helgi.

Þétt setinn bekkurinn

Á ráðstefnunni var fjallað um vinnumarkað framtíðarinnar með áherslu á möguleg áhrif breyttrar heimsmyndar á náms- og atvinnutækifæri ungs fólks. Velferðarráðuneytið stóð fyrir ráðstefnunni sem var skipulögð í samstarfi við ASÍ, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Landssamtök íslenskra stúdenta, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Mikill áhugi var fyrir ráðstefnunni, færri komust að en vildu en til að gera sem flestum kleift að fylgjast með var henni streymt í beinni útsendingu í menningarmiðstöðinni Hofi á Akureyri og í kennslustofum í framhaldsskólum víða um land.

Síðastliðið sumar skilaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands félags- og jafnréttismálaráðherra greiningu á vinnumarkaðinum með margvíslegum upplýsingum um menntun vinnuaflsins, meðalaldur innan ólíkra starfsstétta, aldursþróunina á liðnum árum, kynjahlutföll og marga aðra þætti sem snerta samspil starfa og hæfni vinnuaflsins. Samhliða skilaði sérfræðingahópur tillögu um gerð reglubundinna færnispáa fyrir vinnumarkaðinn, en ólíkt flestum vestrænum ríkjum hafa Íslendingar ekki lagt kerfisbundið mat á færni-, menntunar- eða mannaflaþörf til lengri tíma litið. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld eru sammála um að þessu þurfi að breyta og er eining um að ráðast í nauðsynlega vinnu vegna þess og hrinda tillögum sérfræðingahópsins í framkvæmd. Róbert Farestveit, hagfræðingur ASÍ kynnti tillögur sérfræðingahópsins á ráðstefnunni.

 Ásmundur Einar DaðasonÉg ætla mér að tryggja að tillögur sérfræðingahópsins verði að veruleika en það felur meðal annars í sér að skemmri tíma greiningar á færniþörf verði efldar innan Vinnumálastofnunar og Hagstofu Íslands verði tryggt fjármagn til að vinna færnispár til lengri tíma. Þá mun ég sjá til þess að komið verði á fót svokölluðu landfærniráði sem verður samráðsvettvangur fulltrúa ráðuneyta og hagsmunaaðila til að tryggja aðkomu stjórnvalda að spáferlinu enda lykilatriði að niðurstöðurnar nýtist til framtíðarstefnumótunar þvert á ráðuneyti, sagði Ásmundur Einar, félags- og jafnréttismálaráðherra þegar hann ávarpaði ráðstefnuna. Hann ræddi jafnframt um mikilvægi þess að fjárfesta í viðeigandi menntun eftir þörfum atvinnulífsins og að horfa þurfi til stórfelldra tækniframfara sem muni hafa áhrif á öll störf í náinni framtíð: „Tækifærin sem felast í þessum tækniframförum eru óteljandi en á sama tíma eru til staðar áskoranir tengdar hinu síbreytilegu umhverfi. Þess vegna þurfum við að styðja ungt fólk í viðleitni þess til að ná fótfestu í tækni- og vísindavæddu samfélagi nútímans“ sagði ráðherra meðal annars.

Halldór Benjamín ÞorbergssonHalldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fagnaði orðum ráðherra: „Það er ánægjulegt að heyra að ráðherrann ætlar að taka færni- og mannaaflaspár föstum tökum og veita fjármagn í það og ég fagna því alveg sérstaklega, þetta er mjög mikilvægt mál og það er fulkomin samstaða um að við gerum þetta.“

Upptaka frá ráðstefnunni hefur verið gerð aðgengileg á vef stjórnarráðsins og þar munu einnig  birtast glærur fyrirlesara.

 

  • Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra - mynd
  • Mannafla- og færniþörf á íslenskum vinnumarkaði verður betur greind - mynd úr myndasafni númer 2
  • Mannafla- og færniþörf á íslenskum vinnumarkaði verður betur greind - mynd úr myndasafni númer 3
  • Mannafla- og færniþörf á íslenskum vinnumarkaði verður betur greind - mynd úr myndasafni númer 4
  • Mannafla- og færniþörf á íslenskum vinnumarkaði verður betur greind - mynd úr myndasafni númer 5
  • Mannafla- og færniþörf á íslenskum vinnumarkaði verður betur greind - mynd úr myndasafni númer 6
  • Róbert Farestveit - mynd
  • Halldór Benjamín Þorbergsson - mynd
  • Edda Sif Pálsdóttir fundarstjóri - mynd
  • Fundarmenn - mynd
  • Áhuginn leynir sér ekki  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum