Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukinn stuðningur við rannsóknir, þróun og nýsköpun

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur á Alþingi mælt fyrir frumvarpi um að auka stuðning við rannsóknir og þróun fyrirtækja og stuðla þannig að enn frekari nýsköpun. Lagt er til að núgildandi viðmiðunarfjárhæðir endurgreiðslna vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar tvöfaldist, hækki úr 300 m.kr. í 600 m.kr. Einnig að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar á frádrætti hækki úr 450 m.kr. í 900 m.kr. þegar rannsóknar- og þróunarvinna er keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður hámarkið t.d. 25% hærra en í Noregi sem er með svipað kerfi og Ísland.

Þetta er í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að auka verulega stuðning við rannsóknir og tækniþróun fyrirtækja á kjörtímabilinu. Hækkun viðmiðunarfjárhæða er nauðsynlegt skref í átt að því endanlega markmiði ríkisstjórnarinnar að afnema þök á endurgreiðslur. Ljóst er að endurgreiðslurnar hafa stuðlað að mikilli grósku hjá fjölda fyrirtækja á undanförnum árum. Fjárfesting í nýsköpun, rannsóknum og þróun er undirstaða aukinnar verðmætasköpunar, hagvaxtar og almennra framfara í íslensku samfélagi og því mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram myndarlegum stuðningi á þessu sviði.

Verkefnum sem stuðla að nýsköpun og fá endurgreiðslur úr ríkissjóði fjölgaði úr 283 í 360 milli áranna 2016 og 2017 eftir að viðmiðunarfjárhæðir vegna endurgreiðslnanna voru hækkaðar verulega. Hækkunin hafði einnig þau áhrif að umfang endurgreiðslna stórjókst. Með tvöföldun núgildandi hámarks, líkt og lagt er til í frumvarpinu, er stuðningurinn aukinn enn frekar.

 
 

 

Stærstur hluti þeirra fyrirtækja sem nýta sér endurgreiðslu á þróunar- og rannsóknakostnaði eru með veltu á bilinu 0-500 m.kr. Hækkun viðmiðunarfjárhæða felur í sér aukinn stuðning við stærri fyrirtæki sem eflir frekari uppbyggingu sérfræðistarfa og þróun útflutningsafurða.

 

Samfara hækkun og væntanlegu afnámi þaks er nú hafin vinna við að greina hvernig best sé að haga útfærslu endurgreiðslna með það að markmiði að sá stuðningur sem veittur sé nýtist sem best. Þar verður m.a. til skoðunar markmið endurgreiðslna, umgjörð á mati verkefna, auk skilyrða sem vert er að horfa til við endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarverkefna. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á umhverfi endurgreiðslna verði kynnt á vormánuðum 2019.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira