Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tók þátt í ráðstefnu Süddeutsche Zeitung

  - myndSüddeutsche Zeitung
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um efnahagsmál á vegum Süddeutsche Zeitung, mest lesna dagblaði Þýskalands, ásamt Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, og Önu Brnabić, forsætisráðherra Serbíu, í Berlín í gær.

Forsætisráðherra fjallaði um þær tækniframfarir sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og þróunina á Íslandi í þeim málum. Sérstaklega ræddi hún stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla rafræna stjórnsýslu og aukinn stuðning við nýsköpun og þróun. Þá reifaði hún áhrif tæknibreytinga á menntakerfið og á lýðræðislega umræðu. Hún lagði áherslu á að marka þyrfti stefnu með almannahagsmuni að leiðarljósi í því skyni að tryggja að tæknin nýtist til að styrkja lýðræði, sjálfbærni og jöfnuð, fremur en hið gagnstæða.

Forsætisráðherra tók í kjölfarið þátt í pallborðsumræðum ásamt forsætisráðherrum Eistlands og Serbíu sem Wolfgang Krach, aðalritstjóri Süddeutsche Zeitung, stýrði.

Þá sat forsætisráðherra kvöldverð með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Berlín í gær. Þar ávarpaði Angela Merkel gesti ráðstefnunnar. Að honum loknum átti forsætisráðherra fund með Merkel þar sem þær ræddu m.a. stöðuna í þýskum stjórnmálum og EES-samstarfið.
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Kolinda Grabar-Kitarović, forseti Króatíu og Ana Brnabić, forsætisráðherra Serbíu
  • Wolfgang Krach, aðalritstjóri Süddeutsche Zeitung, Ana Brnabić, forsætisráðherra Serbíu, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira