Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Aukin úrræði fyrir hjúkrunarsjúklinga með alvarlegar geðraskanir

Hjúkrunarheimilið Mörk - myndMörk

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á ósk stjórnenda hjúkrunarheimilisins Markar í Reykjavík um að breyta tíu almennum hjúkrunarrýmum í sérhæfð geðhjúkrunarrými. Þörf fyrir fjölgun sértækra úrræða sem þessara er brýn til að tryggja hjúkrunarsjúklingum með alvarleg geðræn vandamál þjónustu við hæfi.

Heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að gera þessa breytingu sem sé til þess fallin að bæta umönnun, aðstæður og aðbúnað á hjúkrunarheimilum: „Þótt það séu ekki margir einstaklingar sem þurfa á svona úrræði að halda, þá skiptir miklu máli að þeim sé tryggð þjónusta við hæfi og það verður ekki gert svo vel sé á almennum hjúkrunareiningum þar sem þarfir þeirra fyrir þjónustu og aðbúnað fara ekki saman við þarfir annarra íbúa. Ég er afar ánægð með að forsvarsmenn Markar hafi sýnt þetta frumkvæði og er viss um að þeir muni sinna verkefninu vel“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Samtals eru 113 hjúkrunarrými í Mörk við Suðurlandsbraut og þar af eru tíu geðhjúkrunarrými sem rekin hafa verið í sérstakri einingu frá því að heimilið var opnað árið 2010. Þar er því fyrir hendi þekking og reynsla á sérhæfðri þjónustu sem þessari. Nokkrir einstaklingar sem nú búa í búsetukjörnum fyrir geðfatlaða hafa verið metnir í þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimili og eins eru einstaklingar inni á Mörk sem þarfnast sérhæfðrar þjónustu sem þessarar. Áætlaður kostnaðarauki sem fylgir þessari rekstrarbreytingu nemur 15 milljónum króna á ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira