Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland til sérstakrar umfjöllunar á Global Positive Forum í París

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flytur ávarp á Global Positive Forum í París - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sóttu ráðstefnuna Global Positive Forum í París í dag.

Ísland var í aðalhlutverki á ráðstefnunni sem haldin var í tengslum við útgáfu á Positive Economy Index fyrir árið 2018 en staðallinn mælir árangur ríkja með tilliti til fleiri þátta en hagstærða, m.a. trausts í samfélögum, orkunotkunar, menntastefnu, frelsi fjölmiðla o.fl. Að þessu sinni er Ísland í 2. sæti listans, einu stigi á eftir Noregi en í fyrra deildu löndin tvö efsta sætinu.

Sérstök áhersla var lögð á Ísland á ráðstefnunni. Ráðherrarnir fluttu ávörp og tóku þátt í umræðum þar sem þeir svöruðu spurningum úr sal.

Í ávarpi forsætisráðherra kom fram að heimurinn stæði frammi fyrir stórum áskorunum; loftslagsmálum, tæknibreytingum og breyttri aldurssamsetningu þjóða og að ríki heims verði að bregðast við á þann hátt að þau tryggi jöfnuð, sjálfbærni og lýðræði.

Fjármála- og efnahagsráðherra talaði um helstu ástæður þess að Ísland hefði náð miklum árangri á Positive Economy Index, einkum að því er varðar þáttinn ósérhlífni á milli kynslóða (e. altruism between generations). Þá ræddi umhverfis- og auðlindaráðherra um samhæfingu í stefnumótun milli mismunandi þátta umhverfismála og mikilvægi þess að finna lausnir sem geta tekið á fleiri en einum þætti í einu, þannig að ná megi árangri á mörgum sviðum í einu.

Positive Economy Index mælikvarðinn var fyrst gefinn út árið 2013 og hefur Ísland frá upphafi komið vel út á listanum og á síðustu tveimur árum verið í efstu sætum hans. Mælikvarðinn snýst ekki síst um efnahagsstöðu og -stefnu ríkja, samfélagsleg gildi og hve mikilvægt er að snúa frá skammtímahugsun til langtímahugsunar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði einnig með Ségoléne Royal, sendiherra í málefnum heimskautanna og Denis Mukwege, friðarverðlaunahafa Nóbels, sem kynnti forsætisráðherra vinnu sína í Kongó. Þá mun forsætisráðherra funda í franska öldungardeildarþinginu um Ísland og Evrópusamvinnu á morgun.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun eiga fund með aðstoðarframkvæmdastjóra UNESCO á sviði náttúruvísinda í fyrramálið. Þar mun hann ræða framboð Íslands til framkvæmdastjórnar stofnunarinnar, náttúruverndarsvæði og heimsminjaskrá stofnunarinnar auk þess að kynna verkefna háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.


  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Denis Mukwege, friðarverðlaunahafi Nóbels

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira