Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samfélagslegar áskoranir á sviði rannsókna og vísinda

Vísinda- og tækniráð - mynd

Vísinda- og tækniráð féllst í gær á tillögu vísinda- og tækninefnda ráðsins um þær samfélagslegu áskoranir sem mikilvægt er að verði tekist á við á vettvangi íslenska vísindasamfélagsins. Niðurstöður opins samráðs voru kynntar á fundi ráðsins í gær og í kjölfarið staðfesti ráðið tillögu nefndanna um þrjú áherslusvið. Þau eru:

  • Umhverfismál og sjálfbærni
  • Heilsa og velferð 
  • Líf og störf í heimi breytinga

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Það er brýnt að skilgreina þær samfélagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og hvernig vísindin geta tekist á við þær. Ég tel mjög mikilvægt að þarna verður unnt að leiða saman þekkingu og styrkleika mismunandi fræðasviða. Við vitum að loftslagsbreytingar, fjórða iðnbyltingin og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar munu hafa áhrif á líf okkar og samfélag og það er mikilvægt að vísindasamfélagið takist á við þessar breytingar.“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:

„Rannsóknir og nýsköpun vísa veginn þegar við tökumst á við samfélagslegar áskoranir. Það er dýrmætt fyrir Vísinda- og tækniráð að fá þá fram þessa forgangsröðun, hún mun lita stefnu okkar til framtíðar. Við viljum auka vitund um hlutverk og mikilvægi vísinda og efla þátttöku almennings í þekkingarsköpun, þar er háskólasamfélagið í lykilhlutverki.“ 

Vísinda- og tækninefndir ráðsins höfðu samráð við almenning, fulltrúa stjórnmálaflokka á Alþingi, vísindasamfélagið og atvinnulífið um greiningu samfélagslegra áskorana. Markmiðið var að fá fram fjölbreytt sjónarmið og ábendingar sem eflt geta forgangsröðun fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun hér á landi. 

Áherslur þessar munu meðal annars snerta nýja Markáætlun á sviði vísinda og tækni, vegvísi rannsóknarinnviða og alþjóðlegt vísindasamstarf. 

Framlög til vísinda- og rannsókna hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum. Framlög stjórnvalda til nýsköpunar, rannsóknar- og þekkingargreina nema um 13,6 milljörðum kr. á þessu ári en ráðgert er að þau muni hækka um rúmlega 8% á fjárlögum næsta árs.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
 Heimsmarkmið SÞ: 13 Aðgerðir í loftslagsmálum
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum