Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Forsætisráðherra ræðir frið, kvenfrelsi, alþjóðamál og umhverfismál í Höfða

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddi frið, kvenfrelsi og umhverfismál í hringborðsumræðum kvenleiðtoga í Höfða í dag. Meðal þátttakenda voru Ana Birchall, varaforsætisráðherra Rúmeníu, Mari Kiviniemi, aðstoðarframkvæmdastjóri OECD og fyrrum forsætisráðherra Finnlands og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands. Hringborðsumræðurnar voru haldnar í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga (Women Leaders Global Forum) sem nú stendur yfir í Hörpu.

Staða kvenna og stúlkna á átakasvæðum og sú staðreynd að þær eru sjaldnast þátttakendur í friðarviðræðum var sérstaklega rædd. Þá var einnig rætt um stöðu stjórnmálanna og mikilvægi félagslegs og efnahagslegs réttlætis, sem og aðgerða gegn hlýnun jarðar, til að minnka líkur á vopnuðum átökum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Við ræddum friðarmál og leiðir til að tryggja frið og öryggi í heiminum. Almenn heilbrigðisþjónusta, menntun og velferð eru lykilþættir í að byggja upp frið, en einnig okkar bestu tæki til að sporna gegn uppgangi þjóðernishyggju og rasisma, sem og þeim stjórnmálaöflum sem ala á sundrungu og fordómum gegn minnihlutahópum. Nú þegar við minnumst þess að öld er liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar og 70 ár síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt, er meira áríðandi en nokkru sinni fyrr að standa vörð um og efla alþjóðlegar stofnanir og alþjóðlegt samstarf í þágu friðar.“

Fyrir fundinn veitti forsætisráðherra viðtöku yfirlýsingu frá ungmennaráði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en í henni var skorað á þjóðarleiðtoga að hafa ungt fólk með í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir sem varða líf þess og framtíð. Ungmennaráðið brýndi þjóðarleiðtoga heimsins einnig til dáða í að taka á jafnréttismálum.

Katrín Jakobsdóttir:
„Ég tek áskorun ungmennaráðsins fagnandi og er stolt af því að slíkt ráð hafi verið sett á laggirnar til að formgera aðkomu ungs fólks að framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Eftir allt, þá verður það ekki mín kynslóð sem afleiðingar hlýnunar jarðar bitna verst á og það er ekki mín kynslóð sem hefur þurft að bera mestu byrðarnar af auknum ójöfnuði. Við verðum að hafa unga fólkið okkar með í ráðum, alltaf.“

Um heimsþingið
Heimsþing kvenleiðtoga er nú haldið í fyrsta skipti á Íslandi í samstarfi ríkisstjórnar Íslands, Alþingis og Women Political Leaders. Stefnt er að því að halda sambærileg þing næstu þrjú árin en markmiðið er að leiða kvenleiðtoga saman til að deila hugmyndum og þróa lausnir við stærstu áskorunum samtímans.

 

Yfirlýsing ungmennaráðs Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna


  • Forsætisráðherra ræðir frið, kvenfrelsi, alþjóðamál og umhverfismál í Höfða - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta