Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2018 Félagsmálaráðuneytið

Fyrstu skrefin - endurbætt útgáfa á níu tungumálum

Fyrstu skrefin á níu tungumálum - myndVelferðarráðuneytið

Í bæklingnum er fjallað um dvalarleyfi, lögheimilisflutninga, sjúkratryggingar, heilbrigðis og  félagsþjónustu og skólana svo eitthvað sé nefnt.

Fjölmargir aðilar og stofnanir hafa komið að yfirlestri textans en Fjölmenningarsetur hefur borið hitann og þungann af vinnslu textans.

Bæklingurinn er gefinn út í 12 mismunandi útgáfum á  níu tungumálum.  Hann er gefinn út á ensku, spænsku, pólsku, lettnesku, litháísku og rússnesku fyrir ríkisborgara frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins og á ensku, spænsku, rússnesku, taílensku, víetnömsku auk arabísku (í fyrsta skipti) fyrir ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Bæklingurinn er settur þannig upp að textinn er á íslensku vinstra megin á hverri opnu og samsvarandi texti á erlenda málinu hægra megin til  hagræðis fyrir þá sem eru að leiðbeina erlendum aðila varðandi réttindi sín og skyldur.

Haldið var upp á útgáfu bæklingsins í velferðarráðuneytinu nýlega og boðið til fundar fulltrúum frá Innflytjendaráði, Fjölmenningarsetri, Vinnumálastofnun, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtaka kvenna af erlendum uppruna, Söguhring kvenna og Rauða krossinum á Íslandi.

Tatjana Latinovic formaður Innflytjendaráðs sagði frá vinnunni að baki útgáfunni og ræddi um mikilvægi þess að hafa vandað upplýsingaefni sem þetta aðgengilegt á mörgum tungumálum. Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, veitti bæklingnum viðtöku úr hendi Rúnars Helga Haraldssonar, forstöðumanns Fjölmenningarseturs og færði öllum þeim sem að verkinu hafa komið þakkir og góðar kveðjur ráðherra. Verkefnið væri mikilvægt. Ísland væri fjölmenningarsamfélag og liður í því að bjóða fólk velkomið væri að styðja það vel fyrstu skrefin í nýju landi, með góðri leiðsögn og upplýsingagjöf.

Fram kom í máli Rúnars Helga að í upphafi síðasta árs voru innflytjendur á Íslandi tæplega 36.000 og erlendir ríkisborgarar sem fluttu til landsins árið 2017 voru 8.000 fleiri en þeir sem fluttu frá landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira