Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið

Stjórnarsamstarfið eins árs í dag

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs - mynd

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er eins árs í dag.

Ríkisstjórnin var mynduð í kringum metnaðarfull og framsýn markmið um velferð, mannréttindi og loftslagsmál, eflingu Alþingis og aukið þverpólitískt samráð, stórsókn í uppbyggingu á innviðum um allt land og eflingu heilbrigðis- og menntakerfa og fagnar þeim árangri sem náðst hefur fyrir samfélagið á liðnu ári.

Nú þegar eitt ár er liðið af kjörtímabili ríkisstjórnarinnar er 171 verkefni af 183 verkefnum í stjórnarsáttmála í vinnslu eða þeim lokið.


Mynd 1. Vinna við verkefni stjórnarsáttmála er í langflestum tilfellum hafin eða vel á veg komin.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram tvenn fjárlög á starfsárinu og aukið framlög til samfélagslegra verkefna og innviða verulega, eða samtals um 90 milljarða. Frumvarp hefur verið lagt fram um lækkun tryggingagjalds um 0,5% og markvissri lækkun skulda hefur verið haldið áfram. Nema þær nú rétt rúmlega 30% af landsframleiðslu en hrein staða ríkissjóðs er um 653 ma.kr., eða sem nemur um 23% af vergri landsframleiðslu. Unnið er að stofnun Þjóðarsjóðs til að mæta áhrifum verulegra efnahagslegra áfalla.

Framlög til umhverfismála hafa aldrei verið hærri en nú. Metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur verið kynnt og unnið er að fyrstu skrefunum; orkuskiptum í samgöngum og aukinni kolefnisbindingu. Uppbygging meðferðarkjarna nýs Landspítala er hafin og áhersla lögð á að styrkja heilsugæsluna um allt land. Fyrstu skref hafa verið stigin til þess að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér læknisþjónustu og þeirri vinnu verður haldið áfram út kjörtímabilið. Þverpólitísk nefnd vinnur nú að undirbúningi að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands auk þess sem ráðist hefur verið í stórátak við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum með áherslu á friðlýst svæði.

Framlög til menntamála hafa stóraukist og nú stendur yfir vinna við gerð menntastefnu. Istanbúl-sáttmálinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum var fullgiltur, aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota er fullfjármögnuð og stýrihópur um heildstæðar úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi var settur á fót og starfar af fullum krafti. Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir hefur enn verið efldur, nú síðast með tvöföldun hámarksupphæða endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Jafnframt er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem er lykilatriði fyrir framtíð samfélagsins og fjölbreyttari stoðir efnahagslífsins. Unnið er að endurskoðun á starfsumhverfi vísinda og rannsókna og von á frumvarpi um heilindi í vísindarannsóknum. Framtíðarnefnd hefur verið sett á fót á vegum ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Nefndinni er ætlað að fjalla um helstu tækifæri og ógnanir Íslands í framtíðinni m.t.t. langtímabreytinga á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegra breytinga og þeirra hröðu umskipta sem eru í vændum með síaukinni sjálfvirkni og tæknibreytingum.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á samráð við aðila vinnumarkaðarins allt frá stjórnarmyndunarviðræðum þessarar ríkisstjórnar. Atvinnuleysisbætur og greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa voru hækkaðar í vor og í þeim fjárlögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er lagt til að barnabætur hækki um 16% á milli ára og þar með fjölgar þeim sem eiga rétt á barnabótum um rúmlega 2.200.

Nýtt dómstig tók til starfa, löggæsla hefur verið styrkt og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir endurnýjun þyrlukosts Landhelgisgæslunnar. Hagsmunagæsla vegna EES-samstarfsins hefur verið styrkt og mikilvæg skref hafa verið stigin til að innleiða stafræna stjórnsýslu og auka aðgengi og bæta þjónustu við almenning og nýta almannafé betur.

Framlög til nýframkvæmda og viðhalds hafa verið stóraukin til að tryggja umferðaröryggi sem best. Með sérstöku fjárframlagi til vegamála var brugðist við brýnum viðhaldsverkefnum og uppsöfnuðum vanda undanfarinna ára. Áform eru um að flýta uppbyggingu tiltekinna mannvirkja.

Á árinu hefur áhersla verið lögð á málefni barna, umhverfi barnaverndar verður endurskoðað og á næsta ári verður í fyrsta sinn haldið Barnaþing með þátttöku barna hvaðanæva af landinu og ungmennaráð í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna var sett á fót. Máltækniáætlun er nú loksins fjármögnuð enda eitt mikilvægasta tækið til að styðja við íslenska tungu á tækniöld.

Fjölmiðlar eru hjartanlega velkomnir í Ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi eða um klukkan 11:00 í dag þar sem ráðherrar bjóða í skúffuköku og veita viðtöl.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum