Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra setti fullveldishátíð við Stjórnarráðshúsið

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setur fullveldishátíðina 1. desember  - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setti fullveldishátíð við hátíðlega athöfn framan við Stjórnarráðshúsið í dag kl. 13:00. Meðal gesta við setningarathöfnina voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Margrét II. Danadrottning og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, minntist á þær skyldur að standa vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem við eigum og nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti. Að tryggja að við öll sem hér búum fáum notið samfélagslegra gæða og þátttöku í samfélaginu. Að skynsamlega sé haldið utan um stjórn efnahagsmála og verðmætasköpun þannig að við tryggjum lífsgæði fyrir okkur öll.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Þjóðin er fjölmennari og fjölbreyttari. Við tölum hundrað tungumál. Við forritum, skerum upp sjúklinga, kennum börnum, veiðum fisk eða við gerum eitthvað allt annað. Við skrifum og syngjum og sköpum og leikum. Við erum hann og hún og hán. Við erum alls konar.“

Þá fluttu Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Ölvisson, fulltrúar Ungmennaráðs Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna ráðsins og Jelena Ćirić tónlistarkona, einnig ávörp við athöfnina.

Söngfólk ásamt blásarasveit skipuð reyndum tónlistarmönnum í bland við blásara úr Skólahljómsveit Austurbæjar, Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts og Skólahljómsveit Kópavogs önnuðust tónlistarflutning við athöfnina. Tónlistarstjóri var Samúel Jón Samúelsson og auk hans skipuðu tónlistarteymið þau Ástbjörg Rut Jónsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson og Nanna Hlíf Ingvadóttir. Kórarnir sem tóku þátt voru Hinsegin kórinn, Skólakór Kársness, Kvennakórinn Katla, Múltíkúltíkórinn, Söngfjelagið, Karlakór Kjalnesinga, Ekkó kórinn, Léttsveitin, ásamt tveimur söngvurum, sem sungu á íslensku táknmáli, þeim Kolbrúnu Völkudóttur og Uldis Ozols.

Hver á sér fegra föðurland eftir Emil Thoroddsen við ljóð eftir Huldu, Draumalandið eftir Sigfús Einarsson við ljóð Jóns Trausta í útsetningu Samúels Jóns Samúelssonar, Víkivaki eftir Valgeir Guðjónsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum voru sungin við athöfnina. Ræðu forsætisráðherra má lesa hér í heild sinni

Ræðu Kristbjargar Mekkínar Helgadóttur og Mathiasar Ölvissonar, fulltrúa Ungmennaráðs Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, má lesa hér í heild sinni

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira