Hoppa yfir valmynd
14. desember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherra skipar í þrjár stöður embættismanna

Gissur Pétursson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur ákveðið hverjir munu skipa embætti ráðuneytisstjóra í nýju félagsmálaráðuneyti sem tekur til starfa  um áramótin, embætti skrifstofu fjárlaga í ráðuneytinu og embætti forstjóra Vinnueftirlits ríkisins. Einstaklingarnir sem í hlut eiga eru allir starfandi embættismenn en hafa orðið við ósk ráðherra um að taka að sér framangreindar stöður á grundvelli heimildar um flutning embættismanna í starfi í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Ráðuneytisstjóri í nýju félagsmálaráðuneyti verður Gissur Pétursson

Gissur Pétursson, núverandi forstjóri Vinnumálastofnunar, tekur við embætti ráðuneytisstjóra nýstofnaðs félagsmálaráðuneytis frá 1. janúar næstkomandi. Gissur hefur verið forstjóri Vinnumálastofnunar frá því að stofnunin var sett á fót árið 1997. Áður veitti hann um skeið forstöðu skrifstofu vinnumála í félagsmálaráðuneytinu og árin 1986 – 1996 starfaði hann sem sérfræðingur í  sjávarútvegsráðuneytinu. Gissur er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í stjórnmálafræði.

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra segist hlakka til að vinna með Gissuri við uppbyggingu á nýju ráðuneyti félagsmála. Þar sé fyrir sterkur hópur starfsfólks með mikla þekkingu á verkefnum ráðuneytisins: „Nú bætast við ný verkefni með aukinni ábyrgð á húsnæðismálum samhliða því að Mannvirkjastofnun færist undir ábyrgðarsvið míns nýja ráðherraembættis. Eins og fram hefur komið breytist embættisheiti mitt í félags- og barnamálaráðherra þar sem ég mun leggja mikinn þunga í verkefni í þágu barna, bæði innan ráðuneytisins og í samvinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir. Meðal verkefna Gissurar sem ráðuneytisstjóra verður að greina helstu sóknarfæri og huga að því hvernig skipulagi nýs ráðuneytis verði best hagað í þágu verkefnanna sem undir það heyra“ segir ráðherra.

Frá 1. janúar mun Unnur Sverrisdóttir aðstoðarforstjóri Vinnumálastofnunar taka tímabundið við stjórn hennar.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir verður forstjóri Vinnueftirlitsins

Hanna Sigríður GunnsteinsdóttirFélags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að skipa Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, núverandi skrifstofustjóra skrifstofu lífskjara og vinnumála í velferðarráðuneytinu, forstjóra Vinnueftirlits ríkisins. Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirlitinu, hefur verið við stjórnvöl stofnunarinnar frá því að Eyjólfur Sæmundsson forstjóri lést fyrr á þessu ári.

Hanna Sigríður er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og BA-próf í sálfræði. Hún á baki langan starfsferil innan stjórnsýslunnar og lengst af sem stjórnandi, eða allt frá því hún var sett yfir skrifstofu jafnréttis- og vinnumála í félagsmálaráðuneytinu árið 2004. Þá starfaði hún um nokkurra mánaða skeið árið 2009 sem settur ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Hanna Sigríður hefur yfirgripsmikla þekkingu á verkefnum sem lúta að vinnumálum í víðu samhengi enda hefur hún um langt árabil sem skrifstofustjóri þessara málefna fjallað um verkefni sem varða réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda, vinnumarkaðsaðgerðir, starfsendurhæfingu, vinnueftirlit og fleira.

Svanhvít Jakobsdóttir verður skrifstofustjóri fjárlaga

Svanhvít Jakobsdóttir

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að skipa Svanhvíti Jakobsdóttur, núverandi forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, skrifstofustjóra yfir skrifstofu fjárlaga í félagsmálaráðuneytinu frá 1. janúar næstkomandi. Svanhvít er viðskiptafræðingur að mennt. Hún hefur starfað sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2008. Fyrir þann tíma var hún skrifstofustjóri fjármálaskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins í 15 ár en hafði áður starfað um nokkurra ára skeið í ráðuneytinu sem sérfræðingur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum