Hoppa yfir valmynd
14. desember 2018 Félagsmálaráðuneytið

Samningur um starfsemi Aflsins á Akureyri

Hjalti Ómar Ágústsson, Ásmundur Einar Daðason og Elínbjörg Ragnarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, fær 18 milljóna króna framlag til að standa straum af starfsemi sinni sem felst í þjónustu við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldi, samkvæmt nýjum samningi sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur gert við samtökin. Ásmundur Einar og Hjalti Ómar Ágústsson fyrir hönd Aflsins undirrituðu samninginn á Akureyri í gær. Samningurinn er til eins árs.

Þjónusta Aflsins felst í faglegri ráðgjöf og stuðningi við þolendur, forvarnarfræðslu og handleiðslu. Aflið var stofnað árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta og Jafnréttisstofu. Undanfarin ár hefur Aflið verið með þjónustusamning við Akureyrarbæ og átt í samvinnu við bæjaryfirvöld sem á móti veitt hafa félaginu afnot af húsnæði fyrir starfsemi sína í Aðalstræti 14. Samstarfið felst  meðal annars í viðveru og sýnileika sjálfboðaliða á vegum Aflsins á fjölmennum viðburðum og einnig á tjaldstæðum og víðar þegar margmennt er í bænum um helgar. Auk þess veita ráðgjafar Aflsins fræðslu í grunnskólum bæjarins samkvæmt samkomulagi.

Ásmundur Einar segir starfsemi Aflsins skipta miklu máli eins og komi glöggt fram í nýjustu ársskýrslu samtakanna þar sem meðal annars er birt tölfræði sem varpar ljósi á umfangið. Árið 2017 fjölgaði til að mynda einstaklingsviðtölum um 15,3% frá fyrra ári og voru þá rúmlega 1400 talsins, nýjum skjólstæðingum fjölgaði um 43% milli ára og svo mætti áfram telja. „Aflið er svo sannarlega afl til góðs í samfélaginu. Sjálfboðaliðar og fagfólk sinna störfum sínum af miklum metnaði og það er augljóst, því miður, að þörfin fyrir þessa starfsemi er mikil. Það er því ástæða til að þakka fjárlaganefnd Alþingis fyrir að hafa greitt götu Aflsins með ákvörðun um 18 milljóna króna framlag á næsta ári til starfseminnar. Samningurinn byggist á því“ segir Ásmundur Einar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira