Hoppa yfir valmynd
19. desember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Efnainnihald svifryks mælt, aðvaranir til almennings og starfshópur skipaður vegna flugeldamengunar

Flugeldar yfir höfuðborgarsvæðinu - myndHugi Ólafsson

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Umhverfisstofnun hafa gert með sér samning um mælingar á efnasamsetningu svifryks nú um áramótin. Um sérstakt átaksverkefni er að ræða til að bregðast við mengun vegna flugelda. Þá hefur umhverfis- og auðlindaráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra ákveðið að skipa starfshóp ráðuneytanna til að móta tillögur um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna flugeldamengunar.

Markmiðið með mælingunum er að greina efnasamsetningu svifryks og fá upplýsingar svo hægt sé að móta aðgerðir til að stemma stigu við neikvæðum áhrifum flugelda á lýðheilsu og bæta loftgæði. Um er að ræða sértækar mælingar á hlutfalli þungmálma og annarra efna í svifrykinu. Mælt verður á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu: Á Grensásvegi og í Dalsmára, en þar eru fyrir mælar sem mæla heildarmagn svifryks. Mælingarnar sem að ofan ræðir fara fram síðustu fimm daga ársins 2018 og fyrstu fimm daga ársins 2019.

Um síðustu áramót, þegar ljóst var í hvað stefndi vegna veðurskilyrða, var efnainnihald svifryks mælt í fyrsta sinn. Þótt staðsetning mælisins væri nokkuð utan við þéttustu íbúðabyggðina á höfuðborgarsvæðinu kom í ljós greinileg hækkun á svokölluðum PAH-efnum og þungmálmum. Nú verður hins vegar mælt nær þeim svæðum þar sem mest er skotið upp af flugeldum til að fá betri upplýsingar um efnainnihald flugeldamengunar þar sem hún er þéttust, auk þess sem tímabilið verður lengt.

Til viðbótar við mælingarnar hefur Umhverfis- og auðlindaráðuneytið falið Umhverfisstofnun að koma almennum upplýsingum og viðvörunum til almennings um skaðsemi flugelda, sem og upplýsingum tengdum veðurfari og væntanlegum loftgæðum á þeim tíma sem heimilt er að skjóta upp flugeldum. Umhverfisstofnun mun jafnframt koma þessum upplýsingum á framfæri til hagsmunaaðila, m.a. Astma- og ofnæmisfélags Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum