Hoppa yfir valmynd
19. desember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla um efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða afhent ráðherra

Sigurður Jóhannesson og Jukka Siltanen frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands afhentu Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, skýrsluna í dag.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fékk í dag afhenta skýrslu með niðurstöðum rannsóknar á áhrifum friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu í næsta umhverfi. Rannsóknin, sem tók til 12 svæða á Íslandi, sýnir að efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á Íslandi eru ótvírætt jákvæð.

Á árinu 2017 var beinn efnahagslegur ávinningur svæðanna 12 og nærsamfélaga þeirra um 10 milljarðar króna. Ávinningurinn fyrir þjóðarbúið í heild var 33,5 milljarðar króna.
Rannsóknin var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, og voru niðurstöður hennar kynntar á Umhverfisþingi þann 9. nóvember síðastliðinn.

Samkvæmt rannsókninni eyða ferðamenn árlega samtals 10 milljörðum íslenskra króna innan þeirra svæða sem rannsökuð voru eða í næsta nágrenni þeirra. Þetta skapar um 1.800 störf á umræddum stöðum eða um 1.500 full stöðugildi. Um er að ræða bein störf í ferðaþjónustu, svo sem við gistingu, skipulagðar ferðir, akstur og veitingaþjónustu. Þá kom fram að 45% af eyðslu ferðafólks var inni á friðlýstu svæðunum eða í næsta nágrenni þeirra.

Svæðin sem voru rannsökuð voru Ásbyrgi/Jökulsárgljúfur, Laki og Skaftafell, sem öll eru í Vatnajökulsþjóðgarði, Þingvellir, Dynjandi, Hraunfossar, Landmannalaugar, Mývatn, Þórsmörk, Hengifoss og Hvítserkur. Tvö síðast töldu svæðin eru ekki friðlýst þótt svæðinu við Hengifoss sé stjórnað af Vatnajökulsþjóðgarði en voru tekin með í rannsóknina til að ná að fanga ólík svæði vítt og breitt um landið. Niðurstöður frá áður birtri rannsókn á Snæfellsjökulsþjóðgarði voru enn fremur uppfærðar, þannig að heildarfjöldi svæðanna varð 12.

Rannsóknin sýnir að fyrir hverja 1 krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila 23 krónur sér til baka. Hlutfallið er ólíkt á milli svæða, allt frá 10:1 við Dynjanda og upp í 158:1 við Hraunfossa. Á Þingvöllum er hlutfallið 25:1, í Vatnajökulsþjóðgarði 15:1 og í Þórsmörk 21:1, svo nokkur dæmi séu tekin.

Áhrif friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu í næsta umhverfi - skýrsla HHÍ

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum