Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018 Utanríkisráðuneytið

Samningaviðræðum vegna útgöngumála Breta lokið

Samningaviðræðum EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu er lokið og hafa drög að samningnum verið birt. Í honum er leyst úr þeim útgöngumálum sem við eiga með sambærilegum hætti og á milli Bretlands og ESB. Samningurinn mun meðal annars tryggja að Íslendingar sem búa í Bretlandi eða flytja þangað fyrir lok hins svokallaða bráðabirgðatímabils geti verið þar áfram og að réttindi þeirra verði í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að um afar þýðingarmikinn áfanga sé að ræða. „Þetta þýðir að við stöndum jafnfætis aðildarríkjum ESB þegar kemur að því að leysa úr málum sem tengjast útgöngu Bretlands úr sambandinu. Á meðan framhald málsins er enn sveipað nokkurri óvissu halda íslensk stjórnvöld áfram að búa sig undir mismunandi sviðsmyndir,“ segir Guðlaugur Þór. 

Samningamenn Bretlands og ESB tilkynntu þann 14. nóvember 2018 að þeir hefðu náð samningi um útgönguskilmála. Leiðtogaráð ESB samþykkti samninginn á fundi sínum 25. nóvember 2018 en breska þingið á enn eftir að leggja blessun sína yfir hann. Ýmis atriði sem Bretar hafa samið um við ESB vegna fyrirhugaðrar útgöngu úr sambandinu varða einnig Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES. Íslensk stjórnvöld hafa því, í samstarfi við Noreg og Liechtenstein, átt í viðræðum við Bretland um samning sem endurspeglar þessa þætti og er þeim viðræðum nú lokið. Í samningnum er að finna ákvæði sem tryggja réttindi borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu og tengd réttindi sem varða til að mynda almannatryggingar og viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Einnig er í samningnum greitt úr ýmsum tæknilegum úrlausnarnefnum vegna útgöngu Bretlands úr EES á sviði vöruviðskipta, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, persónuverndar og tollamála. 

Stjórnvöld EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu í tilefni þess að viðræðum er nú lokið og drög að samningi liggja fyrir. Yfirlýsingin er svohljóðandi: „Það er ánægjulegt að hafa náð þessu samkomulagi. Samningurinn mun vernda réttindi borgaranna þegar Bretland gengur úr ESB og eyða óvissu hjá fyrirtækjum um ýmis atriði. Markmið okkar er að gera nýja samninga sem taka gildi eftir að bráðabirgðatímabilinu lýkur. Þeir tryggja langvarandi tengsl ríkjanna, þar á meðal á sviði viðskipta“. Bresk stjórnvöld hafa birt tilkynningu um málið, auk nánari skýringa á samningsdrögunum. 

Bretland hverfur að óbreyttu úr ESB hinn 29. mars 2019. Að því gefnu að samningurinn milli Bretlands og ESB um útgönguskilmála öðlist gildi er gert ráð fyrir bráðabirgðatímabili sem hefst frá útgöngudagsetningu og mun standa yfir til loka árs 2020 með möguleika á framlengingu. Á því tímabili myndi regluverk ESB og allir alþjóðasamningar, þar með talið EES-samningurinn, halda áfram að gilda um Bretland. Útgöngusamningi Bretlands úr ESB fylgir pólitísk yfirlýsing um ramma fyrir framtíðarsamskipti þeirra. Ekki verður gerður samningur um framtíðarfyrirkomulag fyrr en eftir útgöngu og er gert ráð fyrir að viðræður fari fram á bráðabirgðatímabilinu. Þá mun Bretland semja um framtíðarsamskipti sín við ESB og önnur ríki, meðal annars Ísland. Mikill vilji ríkir í Bretlandi og á Íslandi til að tryggja áfram náin tengsl og hagstæð viðskipti ríkjanna.  

Útgöngusamningur Bretlands úr ESB hefur sem fyrr segir ekki enn verið samþykktur af breska þinginu. Þar sem samningur EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við Bretland byggist á útgöngusamningi Bretlands úr ESB, verður hann eingöngu undirritaður ef útgöngusamningurinn nær endanlega fram að ganga. EFTA-ríkin innan EES og Bretland munu síðan þurfa að fullgilda samninginn. Pólitískt samkomulag ríkir þó á milli Íslands og Bretlands um að tryggja gagnkvæman rétt borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu, jafnvel þótt Bretland gangi úr ESB án samnings. Einnig er unnið að því að tryggja kjarnahagsmuni á lykilsviðum ef til útgöngu án samnings kæmi. 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum