Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Reglugerð um stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga samþykkt

Ný reglugerð um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga hefur verið samþykkt af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um slíka áætlun að minnsta kosti á þriggja ára fresti. Í nýju reglugerðinni er nánar kveðið á um hvernig standa skal að gerð áætlunarinnar.

Áætlunin skal gilda til fimmtán ára í senn og í henni verður mörkuð aðgerðaáætlun til fimm ára á þessu sviði. Ákvæði um gerð stefnumótandi áætlunar voru færð inn í 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, með 10. gr. laga nr. 53/2018.

Samræming í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga

Stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga er meðal annars ætlað að draga saman meginþætti í langtímastefnumörkun ríkisins í málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og samræma stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi.

Jafnframt verða sett fram leiðarljós um hvert stefna skuli í málefnum sveitarstjórnarstigsins með það að markmiði að efla það og auka sjálfbærni. Stefnumótun ríkisins á þessu sviði er nýmæli og felur í sér að gerð verður langtímaáætlun í takt við aðra stefnumótun og áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun/sóknaráætlanir.

Starfshópur geri tillögur að áætlun

Í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar hefur ráðherra skipað starfshóp með fjórum einstaklingum til að semja tillögur að slíkri áætlun. Í starfshópnum eru annars vegar tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra, þau Valgarður Hilmarsson, fyrrverandi sveitarstjóri Blönduósbæjar, sem jafnframt er formaður starfshópsins, og Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Akureyrarbæ, og hins vegar tveir fulltrúar skipaðir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði.

Með hópnum munu starfa Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri á skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur á sömu skrifstofu og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skipunartími starfshópsins takmarkast við embættistíma ráðherra.

Reglugerð um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga nr. 1245/2018

Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 með síðari breytingum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira