Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stórbætt aðgengi að íslenskri listasögu

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ragnar Th. Sigurðsson formaður Myndstefs og Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands.  - mynd©Myndstef

Vinnuhópur á vegum Listasafns Íslands hefur ásamt Myndstefi, höfundaréttarsamtökum myndhöfunda, unnið að gerð rammasamnings um myndbirtingu höfundarréttarvarinna verka. Við undirritun hans munu söfn fá leyfi til að birta ljósmyndir á veflægri skráningarsíðu sinni (safnmunaskrá), af verkum í höfundarrétti. Með þessu stóreykst aðgengi almennings og skóla að upplýsingum úr safnmunaskrám.

Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður skrifuðu undir rammasamninga við Ragnar Th. Sigurðsson, formann Myndstefs, í Listasafni Íslands á dögunum að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

„Ég fagna þessu mikilvæga skrefi sem bæta mun mjög aðgengi almennings að upplýsingum um íslenska menningar- og listasögu. Oft er sagt að myndir segi meira en þúsund orð og það mun mögulega sannast vel í þessu samhengi. Ég hlakka til að fylgjast með þróun þessara mála og þeim tækifærum sem geta opnast, til dæmis fyrir áhugasama nemendur í myndlist og listasögu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir af þessu tilefni.

Aðgengi skóla og almennings að upplýsingum úr safnmunaskrám listasafna á netinu hefur til þessa nær eingöngu einskorðast við textaupplýsingar en nú verður mögulegt að birta ljósmynd (afrit) af verkum ásamt textaupplýsingum (skráningartexta). Með þessum nýja samningi verður því íslensk sjónlist gerð mun aðgengilegri til kennslu og fyrir almenning.

Samningurinn er saminn með öll söfn í huga því almennt heyrir alltaf einhver hluti safnkosts undir höfundarrétt, hvort sem um ljósmynda-, byggða- eða hönnunarsöfn er að ræða. Öll söfn sem hafa öðlast viðurkenningu safnaráðs eða eru í eigu íslenska ríkisins og starfa eftir lögum geta gengið til samninga við Myndstef. Viðkomandi safn greiðir árlegt gjald til Myndstefs og skuldbindur sig til að gæta sæmdarréttar við skráningar og merkingar samkvæmt höfundalögum. Óheimilt verður að nota ljósmyndir sem birtast úr safnmunaskránum af höfundarréttarvörðu efni í ábataskyni. Myndir eru vatnsmerktar en nú sem áður og þarf að hafa samband við viðkomandi safn og kaupa leyfi til slíkra nota og greiða höfundalaun af notkun í samræmi við samninga.

Í safneign Listasafns Íslands eru nú um 13.000 verk en safnið fer sjálft með höfundarrétt nokkurra listamanna sem hafa ánafnað safninu eða þjóðinni þann rétt. Eins eru listamenn sem ekki eru lengur í höfundarrétti og eiga verk í safneign Listasafns Íslands. Listasafn Íslands mun á næstunni birta megnið af safnkosti sínum á vefsvæðinu www.sarpur.is, miðlægum skráningargrunni íslenskra safna. Markmiðið er að koma myndum af öllum safnkosti safnsins á vefinn í áföngum á næstu misserum.

Þjóðminjasafn Íslands varðveitir einnig fjölbreyttan listrænan safnkost en stærsta safnheild þess er Ljósmyndasafn Íslands þar sem nú eru um 6,7 milljón ljósmyndir. Stærstur hluti þess er í söfnum frá um 240 ljósmyndurum sem spanna tímann frá upphafi ljósmyndunar á Íslandi um 1860 og til dagsins í dag. Stór hluti ljósmyndaefnisins er í höfundarrétti og hefur safnið gert sérstaka samninga við handhafa höfundarréttar margra filmusafna, gengið frá kaupum á höfundarrétti nokkurra og líka fengið slíkan rétt í arf.

Safnmunir Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands eru skráðir á www.sarpur.is.

Í bakgrunni meðfylgjandi ljósmyndar sjást verkin Ljósmynd án titils (1998) eftir Roni Horn og verkið ‘ávextir’ (2000) eftir Söru Björnsdóttur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum