Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundaði með Mike Pompeo

Guðlaugur Þór Þórðarson og Michael Pompeo í Washington í dag - myndUS State Dept

Ýmis tvíhliða málefni á borð við viðskipti, fríverslun, öryggis- og varnarmál og norðurslóðamál voru til umræðu á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington í dag. Ráðherrarnir samþykktu í lok fundar sameiginlega yfirlýsingu um samstarf ríkjanna. 

Fundurinn í Washington í dag er fyrsti tvíhliða fundur ráðherranna frá því Pompeo tók við embætti í fyrrasumar. Viðskipti og varnar- og öryggismál voru í brennidepli á fundinum en auk þess ræddu þeir Guðlaugur Þór og Pompeo málefni norðurslóða og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

„Samband Íslands og Bandaríkjanna hefur alla tíð verið náið, meðal annars á sviði varnar- og öryggismála. Samstarf ríkjanna á því sviði stendur á traustum grunni varnarsamningsins og Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin eru auk þess stærsti einstaki markaður Íslands, bæði þegar horft er til vöru- og þjónustuviðskipta og beinna fjárfestinga á Íslandi, svo ekki sé minnst á þann mikla fjölda bandarískra ferðamanna sem heimsækir Ísland ár hvert,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að fundinum loknum. „Þá deilum við hagsmunum á norðurslóðum og horfum til aukins samstarfs í Norðurskautsráðinu þegar Ísland tekur þar við formennsku í maí. Góð samskipti við okkar góðu granna í vestri eru því afar mikilvæg. Vilji Bandaríkjastjórnar til að efla samvinnuna við okkur enn frekar kom glögglega í ljós á fundinum í dag.”

Í lok fundar samþykktu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu sem tekur til aukins samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, sérstaklega í ljósi breyttra aðstæðna á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. Þá er undirstrikað í yfirlýsingunni að ríkin ætli að kanna leiðir til að bæta aðstæður fyrir viðskipti og fjárfestingar sem og samvinnu á vettvangi Norðurskautsráðsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum