Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Áformuð lagasetning um neyslurými til umsagnar

Birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, áform Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um lagasetningu í því skyni að koma á fót öruggu neyslurými fyrir einstaklinga sem neyta vímuefna með sprautubúnaði, með skaðaminnkun að leiðarljósi. Umsagnarfrestur er til 27. janúar næstkomandi.

Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt vímuefna um æð, undir handleiðslu heilbrigðisstarfsmanna, þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Um nokkurra ára skeið hefur verið til umræðu hvort opna eigi neyslurými hér á landi. Slík rými eru þekkt víða annars staðar, meðal annars í Noregi og Danmörku en alls er talið að um 90 neyslurými séu rekin um heim allan.

Frumvarp verði lagt fram á vorþingi

Eins og fram kemur í umfjöllun um málið í samráðsgáttinni er lagasetning nauðsynleg til að opnun neyslurýmis sé möguleg og áformar ráðherra að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni með í þessu skyni á vorþingi 2019.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þörfina fyrir úrræði sem þetta liggja fyrir og reynslan af rekstri Frú Ragnheiðar sem er skaðaminnkunarverkefni sem Rauði krossinn á Íslandi annast, sýni það meðal annars. Heimsóknum til Frú Ragnheiðar hefur farið fjölgandi og voru um 2.800 árið 2017.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar er reiðubúið að taka þátt í verkefni um opnun neyslurýmis og Rauði krossinn hefur fallist á að sinna þjónustunni. Í fjárlögum þessa árs eru 50 milljónir króna ætlaðar til opnunar neyslurýmis.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira