Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins

Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra heimsótti í gær Geislavarnir ríkisins þar sem Sigurður M. Magnússon forstjóri og sérfræðingar stofnunarinnar kynntu starfsemina fyrir ráðherra, sögðu frá meginverkefnum og gerðu grein fyrir helstu áherslum á nýju ári.

 

Geislavarnir ríkisins annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum og starfa á grundvelli laga um geislavarnir. Hjá stofnuninni starfa ellefu starfsmenn í níu stöðugildum. Rekstur hennar byggist á framlögum úr ríkissjóði og öflun sértekna.

Stór þáttur í starfsemi Geislavarna ríkisins snýr að heilbrigðisþjónustunni vegna eftirlits með jónandi geislun, s.s. röntgengeislun, en slík geislun er fyrst og fremst fyrir hendi í heilbrigðiskerfinu vegna greiningar og meðferðar sjúkdóma, þótt hún sé einnig notuð í iðnaði, á rannsóknastofnunum og við öryggisgæslu. Stofnunin hefur eftirlit með geislaálagi starfsfólks sem vinnur við jónandi geislun, metur geislaálag sjúklinga og geislaálag almennings vegna geislavirkra efna í matvælum og umhverfi.

Stofnunin fylgist einnig með ójónandi geislun á Íslandi og fylgist með útfjólublárri geislun, leysum og rafsegulsviði. Þar undir fellur til að mynda eftirlit með ljósabekkjum, leysum og leysibendum, farsímum og farsímasendum, háspennustöðvum og háspennulínum, raflögnum og þráðlausum netum.

Af fleiri verkefnum Geislavarna ríkisins ber að nefna tæknilegan viðbúnað gegn hvers kyns geislavá, m.a. greining á ógn, samhæfingu við alþjóðleg viðmið og rekstur mælistöðva. Enn fremur sér stofnunin um viðbúnaðartengdar rannsóknir og vöktun og fylgist meðal annars reglubundið með geislavirkum efnum í mjólk, lambakjöti, fiski, þangi, sjó, andrúmslofti og úrkomu.

Nánar má lesa um starfsemi Geislavarna ríkisins á vef stofnunarinnar og í meðfylgjandi kynningarglærum.

 

  • Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins - mynd úr myndasafni númer 1
  • Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins - mynd úr myndasafni númer 2
  • Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum