Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Viljayfirlýsing um rekstur 40 rýma hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í heilbrigðisráðuneytinu í dag - myndHeilbrigðisráðuneytið /ME

Vigdísarholt ehf. mun annast rekstur nýja hjúkrunarheimilisins á Seltjarnarnesi, samkvæmt viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra og Vigdísarholts ehf. sem undirrituð var í dag. Félagið mun einnig taka að sér rekstur dagdvalarrýma í bæjarfélaginu og er stefnt að umtalsverðri fjölgun þeirra.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir fagnaðarefni að með þessu hafi verið eytt þeirri óvissu um rekstur heimilisins sem skapaðist þegar ljóst varð að Seltjarnarnesbær myndi ekki axla samningsbundna ábyrgð sína á rekstri þess: „Ég hef lagt alla áherslu á að tryggja opnun heimilisins um leið og það er tilbúið til reksturs, því hver dagur er dýrmætur í þessum efnum. Tafarlaus opnun þessa hjúkrunarheimilis er eitt af því sem sérstaklega er nefnt í hlutaúttekt Embættis landlæknis til að bregðast við alvarlegri stöðu á bráðamóttöku Landspítalans.“

Fyrir liggur að Seltjarnarnesbær mun afhenda hjúkrunarheimilið fullfrágengið og fullinnréttað til rekstrar, líkt og kveðið er á um í samningi, fyrir næstu mánaðamót. Samkvæmt viljayfirlýsingunni tryggir heilbrigðisráðuneytið greiðslur fyrir rekstri 40 hjúkrunarrýma af hálfu Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar næstkomandi. Gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að þrjá mánuði að koma heimilinu í fullan rekstur þannig að öll hjúkrunarrýmin verði fullnýtt: „Við munum leggja allt kapp á að taka heimilið í notkun eins fljótt og kostur er, manna stöður og ljúka öðrum undirbúningi“ segir Steingrímur Ari Arason, formaður stjórnar Vigdísarholts en hann gerir ráð fyrir að hægt verði að taka við fyrstu heimilismönnunum í byrjun apríl.

Vigdísarholt sem tekur að sér rekstur hjúkrunarheimilisins á Seltjarnarnesi, er einkahlutafélag í eigu ríkisins. Félagið rekur einnig hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi undir stjórn Kristjáns Sigurðssonar sem er framkvæmdastjóri Vigdísarholts og mun einnig stýra rekstri heimilisins á Seltjarnarnesi. Horft er til samlegðaráhrifa í þessu sambandi með góða þjónustu og samnýtingu að leiðarljósi.

Dagdvalarrýmum verði fjölgað að ári úr 9 í 25

Vigdísarholt mun einnig taka að sér rekstur níu dagdvalarrýma sem Seltjarnarnesbær hefur rekið við Skólabraut. Þann 1. júlí næstkomandi verður sú þjónusta færð inn í húsnæði nýja hjúkrunarheimilisins. Stefnt er að því að fjölga dagdvalarrýmunum verulega, eða úr níu í 25 frá 1. janúar 2020, líkt og fram kemur í viljayfirlýsingunni sem undirrituð var í dag.

  • Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í heilbrigðisráðuneytinu í dag - mynd
  • Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í heilbrigðisráðuneytinu í dag - mynd
  • Viljayfirlýsing um rekstur 40 rýma hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum