Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Stuðningur við íslenskt þekkingarsamfélag og nýsköpun

Rannís er ein af undirstofnunum mennta- og menningarmálaráðuneytisins en hlutverk hennar er að styðja við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu. Rannís hefur umsjón með helstu samkeppnissjóðum á þeim sviðum, listamannalaunum, samstarfsáætlunum ESB (Erasmus+, Creative Europe og Horizon 2020) og norrænum áætlunum (Nordplus og Nordforsk) sem veita styrki til rannsóknarverkefna, náms og þjálfunar. Af innlendum samkeppnissjóðum eru Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður stærstir.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- menningarmálaráðherra heimsótti stofnunina á dögunum og fræddist um fjölbreytta starfsemi Rannís og vinnu sem er á lokastigum við mótun stefnu stofnunarinnar til ársins 2025.

„Rannís hefur vaxið og dafnað sem öflug stofnun sem veitir afar mikilvægan stuðning við menntastofnanir, atvinnulíf og einstaklinga. Þar eru hýstir rúmlega 20 innlendir sjóðir og 5 erlendar samstarfsáætlanir sem yfir 10.000 einstaklingar njóta góðs af á ári hverju. Það er virkilega fróðlegt að kynnast hversu marga snertifleti starfsemi Rannís hefur við íslenskt atvinnu- og menningarlíf og hvernig hún styður við áherslur stjórnvalda á þeim sviðum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Hjá Rannís starfa um 50 starfsmenn en á ári hverju berast þeim nær 4.200 umsóknir í fyrrgreinda sjóði og samstarfsáætlanir. Stuðningurinn við þekkingarsamfélagið nemur um 13 milljörðum kr. á ári. Nú síðast var tilkynnt um úthlutanir Rannsóknasjóðs fyrir styrkárið 2019 en á þessum tíma árs er m.a. auglýst eftir umsóknum í Tækniþróunarsjóð, Nordplus og Nýsköpunarsjóð námsmanna.

Árangur af sókn íslenskra aðila í evrópskar samstarfsáætlanir hefur verið góður í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir og fjárhagslegt umfang þátttökunnar aukist í takt við stækkandi áætlanir á hverju tímabili. Fjárhagslegur ávinningur Íslands af þátttökunni er mikill í samanburði við framlag Íslands til hennar. Neðangreind mynd sýnir heildarstuðning til Íslands frá árinu 1995 til ársins 2017 til einstakra áætlana, annars vegar styrkveitingar til Íslands og hins vegar skuldbindingar Íslands vegna þátttöku.

Styrkveitingar til Íslands og skuldbindingar frá 1995.

Styrkveitingar til Íslands og skuldbindingar frá árinu 1995.

Horizon 2020 er stærsta áætlunin sem Rannís hefur umsjón með, eða um 76% af umfangi þess samstarfs sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES samningsins. Erasmus+ er um 15% af umfangi og Creative Europe er um 1,5%. Heildarfjárveiting ESB til þessara áætlana á tímabilinu 2014–2020 er um 100 milljarðar evra.

Ef miðað er við styrkupphæðir á hvern íbúa má sjá að árangur Íslands af sókn í fyrrgreindar áætlanir hefur verið góður. Neðangreind mynd sýnir styrki í evrum á hvern íbúa í nokkrum samanburðarlöndum. Rétt er að taka fram að í Erasmus+ er ekki samkeppni á milli landa, úthlutun styrkja fer að mestu leyti fram í löndunum sjálfum og byggist hún á ákveðnum reiknireglum. Njóta þar smærri ríkin fámennisins eins og myndin sýnir.

Rannsóknir, menntun og menning: Styrkir í evrum á hvern íbúa 2014–2017.

Rannsóknir, menntun og menning: Styrkir í evrum á hvern íbúa 2014-2017.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira